Maríuerla

Maríuerla Ljósmynd Daníel Bergmann

Maríuerla er útbreiddur varpfugl í Evrópu og Asíu til Kyrrahafs og verpur auk þess í Marokkó og vestast í Alaska. Hér verpur hún strjált á láglendi um land allt og á stöku stað á hálendinu, einkum við mannabústaði en einnig meðfram ám og í sjávarklettum. Fuglarnir fara allir til Afríku sunnan Sahara á veturna.

Giskað hefur verið á að varpstofn maríuerlu telji 20.000−50.000 pör.

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Maríuerla virðist vera algengust á suðvestanverðu landinu (sjá kort). Hún er mjög tengd landbúnaði og oft sagt að eitt maríuerlupar sé á hverjum bæ. Reiknuð stofnstærð er aðeins um 3.700 pör sem örugglega er verulegt vanmat (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Þéttleikinn er mestur í ræktarlandi 0,6 pör/km², en á graslendi, í hraunavist og moslendi eru 0,3 pör/km². Mikilvægustu vistlendi og landgerðir fyrir stofninn eru ræktarland, 1.018 pör, og graslendi, 778 pör. Tekið skal fram að engar mælingar voru gerðar í þéttbýli þar sem maríuerlur eru oft algengar. Mest af maríuerlum telst vera á Suðurlandsundirlendi, 21% stofns, en 8% reiknast á öðrum mikilvægum fuglasvæðum.

Maríuerla er tiltölulega algeng hér og verpur dreift en stofnþróun er óþekkt. Kerfisbundnar mælingar á þéttleika hér á landi eru skammt á veg komnar (hófust árið 2006) og ná þar að auki illa utan um kjörlendi maríuerlu. Ekki eru neinar vísbendingar um að henni hafi fækkað hér undanfarið og er hún því flokkuð sem tegund sem ekki er í hættu.

Af vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

DEILA