KETKRÓKUR OG SKATAN

Næstsíðastur jólasveinanna í röðinni er hann Ketkrókur sem áður fyrr var þekktur fyrir að stela hangikjöti á leið sinni um byggðirnar.

Á Facebooksíðu Hagstofunnar er daglega fjallað um komu jólasveinanna og þar segir:

„Lengi vel hafa heimturnar á hangikjöti þó verið minni á Vestfjörðum en annars staðar því það var í þeim landshluta þar sem sú hefð skapaðist að borða skötu á Þorláksmessu og sérlega erfitt að þefa uppi hangikjötið fyrir ammóníakfnyknum.

Þetta vandamál varð svo útbreiddara eftir því sem leið á 20. öldina þegar brottfluttir Vestfirðingar kynntu höfuðborgarbúa og aðra fyrir skötuveislunni, Ketkróki og innfæddum íbúum til mismikillar gleði.

Það sem af er þessu ári hafa verið veidd 911 tonn af skötu og tindaskötu og þar af er aðeins lítill hluti fluttur út svo nóg ætti að vera til í landinu fyrir skötuveislur dagsins.“

DEILA