Íslensk jólatré

Misjafnt er frá einu landi til annars hvernig fólk vill hafa jólatré og eins hefur hvert og eitt okkar sína hugmynd um hið eina rétta jólatré. Hefðir eru ólíkar en tíðarandi og tíska breytist líka í þessu sem öðru. Í margra huga er rauðgreni hið eina sanna jólatré en ekki er óalgengt að fólk sem vanist hefur stafafuru líti ekki við öðru.

Sala jólatrjáa síðustu ár hefur verið stöðug og hlutdeild íslenskra trjáa á bilinu 7-11 þúsund tré. Fjöldi innfluttra jólatrjáa hefur verið á bilinu 40-50 þúsund. Innlend framleiðsla er einungis um 1/5 af heildarsölu jólatrjáa. Samkeppni við gervijólatrén hefur farið harðnandi. 

Skógræktin og skógræktarfélögin hafa verið aðalframleiðendur jólatrjáa til þessa og síðustu ár hafa nokkrir skógarbændur bæst í þann hóp undir forystu Landssamtaka skógareigenda.

Jólatré eru afurð frá íslenskum bændum og öðrum skógareigendum og ánægjulegt er að sjá nú fréttir í Bændablaðinu af því að hlutdeild íslenskra jólatrjáa fari vaxandi en innfluttum trjám fari fækkandi.

Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréð en í fyllingu tímans bætist við kynbættur íslenskur fjallaþinur sem ætti að falla unnendum nordmannsþins í geð.

DEILA