Frístundahús og bílskúrar ekki lengur háð útgáfu byggingarleyfis


Ný reglugerð hefur tekið gildi sem ætlað er að straumlínulaga leyfisveitingaferlið við húsbyggingar.

Reglugerðin kveður á um upptöku nýs kerfis við flokkun mannvirkja, sem hafa mun bein áhrif á eftirlit sveitarfélaga, meðferð umsókna og útgáfu leyfa vegna allrar mannvirkjagerðar.

Nýja flokkunarkerfið þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem mun draga verulega úr flækjustigi í slíkum framkvæmdum.

Breytingin er í takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála. Framundan er frekari endurskoðun m.a. með hliðsjón af tillögum OECD sem gagnrýndi fyrra kerfi leyfisveitinga í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði á síðasta ári.


Markmið með setningu reglugerðarinnar er að draga úr kostnaði við framkvæmdir og gera eftirlit með mannvirkjagerð skilvirkara og einfaldara með því að flokka mannvirki, m.a. eftir stærð, flækjustigi hönnunar og samfélagslegu mikilvægi. Þannig verður umsóknarferli byggingarleyfis og eftirlit með mannvirkjagerð sniðið að hverjum flokki fyrir sig á þann hátt að umfangslítil mannvirkjagerð verður mun einfaldari í framkvæmd sem ætti að leiða til lægri byggingarkostnaðar.

Tillögurnar um flokkun mannvirkja voru unnar af starfshópi skipuðum af félagsmálaráðherra. Við gerð tillagna hópsins var litið til annarra Norðurlanda og var niðurstaðan sú að flokka skyldi mannvirkjagerð í þrjá svokallaða umfangsflokka.

Breytingin nú er einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og einfalda leyfisveitingar vegna byggingaframkvæmda. 

DEILA