Fjórir grunnskólar og fimm leikskólar á Vestfjörðum með grænfánann

Á fréttavefnum strandir.is kemur fram að á Vestfjörðum séu samtals 11 skólar í grænfánaverkefninu, ýmist að byrja eða komnir með fána og nokkrir búnir að vera yfir áratug í verkefninu.

Fjórir grunnskólar eru með grænfánann á Vestfjörðum; Tálknafjarðarskóli, Bíldudalsskóli, Patreksskóli auk Grunn- og tónskólans á Hólmavík.

Þá eru fimm leikskólar í verkefninu: á Hólmavík, Tálknafirði, Bíldudal, Patreksfirði og á Suðureyri.

Lýðskólinn á Flateyri er einnig að byrja í verkefninu sem gerir hann að eina skólanum á Vestfjörðum á framhaldsskólastigi sem er skráður í verkefnið. 

Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education segir á vef Landverndar.

DEILA