Færð á vegum – Munið símanúmerið 1777

Færð og veður á íslenskum þjóðvegum geta verið viðsjárverð. Þegar aka á milli landshluta, sér í lagi á veturna, er gott að vera vel undirbúinn. Í nýju myndbandi er fjallað um umferðarþjónustu Vegagerðarinnar sem veitir upplýsingar til vegfarenda í gegnum símanúmerið 1777, tölvupóst, Facebook og Twitter.

„Umferðarþjónustan sér um að miðla upplýsingum til vegfarenda í sambandi við færð og veður á vegum. Við svörum fólki í síma, sendum út tilkynningar á fjölmiðla, svörum fyrirspurnum í tölvupósti, Twitter, Facebook, og reynum að svara öllu því sem vegfarendur þurfa að spyrja um,“ segir Kristinn Þröstur Jónsson deildarstjóri umferðarþjónustu Vegagerðarinnar. Hann segir fólk oft að  skipuleggja ferðalög, það þurfi að komast á milli landshluta eða vill vita færðina innan höfuðborgarsvæðis. „Algengasta spurningin sem við fáum er: „Hvernig er færðin á heiðinni. Þá er fólk svolítið að gleyma að það eru fleiri en ein heiði á Íslandi en það er þá Hellisheiðin sem verið er að spyrja um,“ segir Kristinn glettinn.

Umferðarþjónustan er starfrækt á Ísafirði og þar starfa sjö manns sem hafa góða reynslu í upplýsingagjöf til vegfarenda.

Viðfangsefni umferðarþjónustunnar eru ólík að sumri og vetri. Á veturna, frá 15. október til 30. apríl, er vakt milli klukkan 6.30 og 22 á kvöldin. Á þessum tíma er mest spurt um færð og veður og vegfarendur hringja inn með ábendingar um það sem betur megi fara í vetrarþjónustu. Á sumrin, frá 1. maí til 14. október, er vakt milli klukkan 8 og 16. Þá hringir fólk til að skipuleggja ferðalög, spyr út í vegalengdir og í hvernig ástandi vegirnir eru á hálendinu. Einnig er hringt og Vegagerðin hvött til að  sinna ýmsum verkum á borð við rykbindingu og heflun vega auk þess sem fólk forvitnast um þær framkvæmdir sem eru í gangi og hvort af þeim geti hlotist tafir.

Oft getur verið mikið að gera hjá umferðarþjónustunni, sérstaklega á veturna þegar vond veður geisa. Á annasömum degi svarar starfsfólk umferðarþjónustunnar hátt í 3.000 símtölum og sendir út í kringum 150 upplýsingatíst á Twitter, sem birtast einnig á heimasíðu Vegagerðarinnar.

„Skemmtilegast við starfið er þegar það er vitlaust að gera. Þá er allt á útopnu, allir á taugum. hlaupandi um. Mér finnst það alltaf gaman, ég veit ekki af hverju,“ segir Kristinn og bætir við fólk eigi ekki að hika við að hringja. „Það er enginn að trufla okkur þó hann hringi og spyrji skrítinna spurninga um færð. Við erum alltaf tilbúin að hjálpa og svara eins vel og við getum.“

https://youtu.be/Lpn1PijdrWY
DEILA