Bók um Þóri Baldvinsson

Út er komin bókin Þórir Baldvinsson arkitekt og eru höfundar hennar Árni Daníel Júlíusson, Jóhannes Þórðarson, Ólafur Mathiesen, Pétur H. Ármannsson og Ólafur J. Engilbertsson.

Úlfur Kolka sá um útlit bókarinnar en hana prýðir fjöldi ljósmynda og teikninga. Útgefandi er Sögumiðlun. Hið íslenska bókmenntafélag sér um dreifingu.

Ritstjóri bókarinnar er Ólafur Jóhann Engilertsson og í bókinni eru nokkrar myndir af byggingum Þóris á Vestfjörðum. Má þar nefna Alþýðuhúsið á Ísafirði og Héraðsskólann í Reykjanesi, hvorttveggja byggingar frá fjórða áratugnum.

Fyrsta héraðsskólabyggingin sem Þórir teiknaði var í Reykjanesi 1934. Aðalsteinn Eiríksson, sem var fyrsti skólastjóri í Reykjanesi, hafði forgöngu um að koma málefnum héraðsskóla á dagskrá ásamt Jónasi frá Hriflu. Aðalsteinn var jafnaldri Þóris og úr Þingeyjarsýslu eins og hann og höfðu þeir talsvert samráð fyrstu árin eftir að Þórir hóf störf á Teiknistofunni, en Aðalsteinn var þá kennari við Austurbæjarskólann.

Þórir Baldvinsson var í senn framúrstefnumaður í arkitektúr og hugsjónamaður í baráttu fyrir bættum húsakosti til sveita.

Hann varð fyrstur íslenskra arkitekta til að kynna nýjar húsnæðislausnir í anda funksjónalisma og var frumkvöðull í gerð slíkra bygginga hér á landi.

Þórir teiknaði einnig fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús vítt og breitt um landið og þekktar byggingar í Reykjavík eins og Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og Mjólkurstöðina við Laugaveg sem nú hýsir Þjóðskjalasafnið.

Helsta starf Þóris var hinsvegar að veita Teiknistofu landbúnaðarins forstöðu á árunum 1938-1969.

DEILA