VILTU VERA Í UNGMENNARÁÐ HEIMSMARKMIÐANNA

Fráfarandi Ungmennaráð ásamt Salvöru Nordal, umboðsmanni barna, og Tinnu Rós Steinsdóttur, sérfræðingi hjá umboðsmanni barna.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Forsætisráðherra fer með skipun ráðsins en óskað er eftir börnum sem eru tilbúin að sitja í ráðinu í tvö ár, frá og með janúar 2022.

Átta meðlimir ungmennaráðsins verða kosnir á barnaþingi umboðsmanns barna sem haldið verður í Hörpu dagana 18.-19. nóvember.

Þar verða saman komin um 150 börn allstaðar að af landinu og munu þau hljóta kjörlista með upplýsingum um hvern frambjóðenda og persónuupplýsingum.

Fjórir meðlimir ráðsins verða svo valdir í kjölfarið af valnefnd á vegum forsætisráðuneytisins. Val á þeim einstaklingum miðast við að tryggja fjölbreytileika barnanna í ráðinu.

Hlutverk ungmennaráðs heimsmarkmiðanna er fyrst og fremst að vinna með málefni tengd heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, og vinna að því að koma sjónarmiðum barna á framfæri. Þetta er eina ungmennaráðið sem starfar innan stjórnsýslunnar og gefur það sínar ráðleggingar til ráðuneyta og ýmissa stofnanna eftir óskum. 

DEILA