Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður sunnudaginn 21. nóvember

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 21. nóvember. Í ár verður kastljósinu meðal annars beint að afleiðingum þess ef öryggisbelti eru ekki notuð.

Táknrænar minningarstundir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni. Dagskrá viðburða er á vefnum minningardagur.is.

Minningarathöfn verður haldin við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð kl. 14:00. Forseti Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verða viðstaddir og flytja ávörp. Við þetta tækifæri munu forseti og ráðherra, ásamt fulltrúum viðbragðsaðila, kveikja á kertum til minningar um fórnarlömb umferðarslysa.

Boðuð verður einnar mínútu þögn sem landsmenn eru hvattir til að taka þátt í. Vegna faraldursins verður streymt frá athöfninni á vef minningardagsins og á Facebook og er fólk hvatt til að njóta þess og sýna viðeigandi hluttekningu. 

Sautján minningarviðburðir eru skipulagðir um land allt í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og verða flestir þeirra í beinu vefstreymi. Fólk er hvatt til að taka þátt með því að fylgjast með í gegnum streymi og kveikja á kertum til minningar um fólk sem látist hefur eða slasast alvarlega í umferðinni. 

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum sem eru með lifandi, beina útsendingu, á minningardaginn kl. 14:00.

DEILA