Íbúafundur í Kaldrananeshreppi

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps boðar til íbúafundar miðvikudaginn 17. nóvember kl. 18:30 í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.

„Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps hefur ákveðið að eiga samtal við íbúa sína vegna ákvæða í nýju sveitarstjórnarlögum og upplýsa um þau verkefni sem verið er að undirbúa.“ segir Finnur Ólafsson, oddviti hreppsins í viðtali við strandir.is.

Í nýjum sveitarstjórnarlögum er kveðið á um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum og á síðasta fundi hreppsnefndar voru teknar fyrir niðurstöður Strandabyggðar sem nýlega fór í valkostagreiningu varðandi möguleika á sameiningu sveitarfélaga á svæðinu.

Á fundinum var ákveðið að taka málið til skoðunar og kanna vilja íbúa á íbúafundi. Einnig verður fjallað um fjölgun lóða á Drangsnesi, leit að jarðhita og önnur mál.

DEILA