Heilsugæslan í Búðardal og Reykhólum fær nýtt tæki

Undanfarið hefur Heilsugæslan í Búðardal og Reykhólum í samstarfi við Lionsklúbbinn í Dölum og Reykhólahreppi safnað peningum til kaupa á Vscan Air tæki og spjaldtölvu. Tækin eru keypt fyrir gjafafé eingöngu, en þau kosta rúmlega 1 milljón króna.

Þetta Vscan tæki er létt og meðfærilegt sónartæki sem tengist snjallsíma eða spjaldtölvu og er þægilegt að grípa með í sjúkravitjanir og útköll. Með tækinu er auðveldara fyrir lækni að meta ástand sjúklinga og greina innvortis áverka eða sjúkdóma.

Handverksfélagið Assa hefur um árabil starfrækt nytjamarkað samhliða handverksmarkaðnum og alltaf hefur verið nokkur ágóði af honum sem hefur runnið til góðra málefna á svæðinu. Að þessu sinni var ákveðið að afhenda Heilsugæslunni ágóðann, kr. 160.000.- sem framlag til kaupa á áðurgreindu tæki.

Þórður Ingólfsson læknir í Búðardal tók við gjöfinni í dag, úr hendi Andreu Björnsdóttur gjaldkera handverksfélagsins. Við það tilefni upplýsti hann að söfnunarupphæðin væri komin upp í andvirði tækisins og næsta mál að ganga frá kaupunum.

Ásamt Þórði komu frá Heilsugæslunni Ingveldur Guðmundsdóttir, Þórunn Björk Einardóttir og Einar Jón Geirsson sjúkrabílstjóri, en þau komu á nýjum sjúkrabíl sem er búinn að vera rúma viku í Búðardal. Annar eldri bíll er líka í Búðardal, í góðu standi, þannig að við erum vel sett með 2 öfluga sjúkrabíla þar.

DEILA