Haftyrðill

Haftyrðill er líkur álku en miklu minni, smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Kynin eru eins.

Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Haftyrðill er hávær á varptíma en annars þögull.

Haftyrðill er vetrargestur. Hann er heimskautafugl sem varp áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Um aldamótin 1900 urpu nokkur hundruð pör í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey, honum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Til skamms tíma urpu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan, hreiður fannst síðast 1995. Haftyrðill er mjög algengur í löndum norðan við okkur, t.d. á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða, austur til Franz-Jósefslands og Novaja Zemlja. Árlega sést talsvert af honum hér á veturna, sérstaklega eftir norðanáttir og hann fylgir oft hafís. Þá getur haftyrðla hrakið langt inn á land í stórviðrum.

Af fuglavefur.is

DEILA