Árneshreppur: Frumdrög að heilsársvegi yfir Veiðileysuháls kynnt

Starfsfólk Vegagerðarinnar ásamt hluta sveitarstjórnar Árneshrepps. Ljósm. Skúli Gautason

Starfsfólk Vegagerðarinnar kom í Norðurfjörð á Ströndum og kynnti frumdrög að heilsársvegi yfir Veiðileysuháls fyrir sveitarstjórn Árneshrepps. Almenn ánægja með drögin og spunnust áhugaverðar umræður þar sem heimamenn deildu reynslu sinni af snjósöfnun á fyrirhuguðu vegstæði. Einnig voru rædd næstu skref til að bæta vegasamgöngur við Árneshrepp, m.a. gerð vegar yfir Naustvíkurskörð. 

Framundan eru margskonar rannsóknir á Veiðileysuhálsi, umhverfismat og frekari hönnun, m.a. leggur Vegagerðin mikið upp úr því að safna skuli fræjum þeirra gróðurtegunda sem fyrir er á svæðinu og nýta þau síðan til að græða upp þau sár sem óhjákvæmilega myndast við slíkar framkvæmdir. Þannig fellur vegurinn mun betur inn í umhverfið. Helsta viðfangsefnið í hönnun þessa vegar verður að tryggja að sem minnstur snjór safnist á veginn og því verða skeringar að vera aflíðandi. 

Gerð heilsársvegar yfir Veiðileysuháls hefur gríðarmikla þýðingu fyrir búsetu og atvinnulíf í Árneshreppi. Á dögunum var ákveðið að færa Árneshrepp úr sk. G-reglu í F-reglu í tilraunaskyni sem gerir það að verkum að þeirri einangrun sem hreppurinn hefur þurft að búa við yfir veturinn er aflétt. 

Vegagerð yfir Veiðileysuháls er samkvæmt samgönguáætlun fyrirhuguð á árunum 2024 og 2025. Starfsfólk Vegagerðarinnar vonaðist þó til að öllum rannsóknum, hönnun og annarri undirbúningsvinnu yrði lokið á næsta ári svo vonandi verður hægt að flýta framkvæmdum um eitt ár

DEILA