APÓTEKIÐ FLUTT

Ljósmynd úr dánarbúi Jónasar Magnússonar, Ísafirði.

Landsbanki Íslands á Ísafirði fagnaði fimmtíu ára afmæli útibúsins  árið 1954 og var af því tilefni ákveðið að hefja undirbúning að byggingu húsnæðis undir starfsemina. Keypt var húseignin Pólgata 1 ásamt stórri eignarlóð sem var áföst við lóð er útibúið hafði átt um árabil á horni Mjallargötu og Hafnarstrætis. Húsið byggði Einar Bjarnason kaupmaður árið 1901 og hafði Apótek Ísafjarðar hafði verið þar frá árinu 1911. Sumarið 1955 var húsið flutt í heilu lagi á lóðina á horni Mjallargötu og Hafnarstrætis og nýtt húsnæði fyrir bankann byggt á lóðinni Pólgötu 1. Þangað flutti svo Landsbankinn í desember 1958 og hefur verið síðan.

Flutningur apóteksins vakti mikla athygli og í blaðinu Vesturlandi birtist eftirfarandi klausa undir fyrirsögninni „Síðari þjóðflutningum lokið“:

Um fátt hefur verið meira talað í bænum en ákvörðun Landsbankans að flytja Apótekið af sínum stað við Pólgötu á nýsteyptan grunn við Mjallargötu. Eins og margir vita, þá er ætlun bankans að byggja bankahús við Pólgötu og Hafnarstræti. Nokkrir spekingar töldu þessa framkvæmd andvana fædda. Húsið myndi ekki þola flutninginn o.s.frv. Og svo skeði undrið. Apótekið rúllaði af stað á sinn nýja grunn. Meðalaglösin og krukkurnar hreyfðust ekki í hillunum, og glas með vatni í stóð á búðardiskinum á meðan ferðalag hússins stóð yfir, og það fór ekki dropi úr glasinu. Og er nú lokið þessum síðari þjóðflutningum. (Vesturland 10. ágúst 1955, 4)

Af vefsíðu Ljósmyndasafns Ísafjarðar

DEILA