Ný verðskrá Póstsins tekur gildi 1. nóvember og nær hún til sendinga á fjölpósti og sendinga á pökkum 0-10 kg.
Ástæða verðbreytinganna eru ný lög sem kveða á um að gjald fyrir sendingar endurspegli raunkostnað en verði ekki jafnað út þvert yfir landið með stuðningi frá ríkinu eins og fyrri lög kváðu á um.
Þetta þýðir að flutningur á 0-2 kg pakka innanlands kostar 1090 kr. á svæði 1 eða innan höfuðborgarsvæðisins; kr. 1290 á svæði 2 sem skilgreint er sem kjarnastaðir og þar undir fellur Ísafjörður og Patreksfjörður á Vestfjörðum; 1390 kr. á svæði 3 sem er annað þéttbýli og svo 1690 kr. á svæði 4 sem flokkast sem dreifbýli.
Þarna munar því 600 krónum á hæst og lægsta verði.
Póstinum er áfram heimilt að viðhafa sömu verðskrá um allt land á bréfum undir 51 grammi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingu á verðskrá að svo stöddu og mun Pósturinn því eftir sem áður sinna póstsendingum til allra landsmanna fyrir hönd ríkisins.