Landfylling norðan Skutulsfjarðareyrar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 14. október síðastliðinn að heimila að skipulagslýsing vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og tilfærslu á sjóvörn í Skutulsfirði verði kynnt opinberlega skv. skipulagslögum.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að auka byggingarland á Ísafirði. Fyrirhuguð landfylling verður utan við Fjarðarstræti, nánar tiltekið frá Norðurtanga að Eyrargötu 2-4 sem er kennt við Íshúsfélagið. Gert er ráð fyrir að meginlandnotkun á fyllingunni verði íbúðarbyggð en einnig verði þar rými fyrir minni þjónustu. 

Í gildandi aðalskipulagi er svæðið á milli Fjarðarstrætis og fyrirhugaðrar landfyllingar skilgreint sem svæði fyrir íbúðarbyggð. Ysti hlutinn er skilgreindur sem opið svæði og útivist og þar er malbikaður göngustígur. Stór hluti Skutulsfjarðareyrar er hverfisverndaður í gildandi aðalskipulagi.

Fyrirhuguð landfylling norðan Skutulsfjarðareyrar (Eyrarinnar) mun skapa nýtt byggingarland en það er takmarkað í Skutulsfirði.

DEILA