Ísfirðingar sýna grænlenskum gestum bæinn sinn

Danska skipið Gustav Holm lagði að bryggju við Ísafjarðarhöfn 25. ágúst 1925 og um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar. Ekki var það óvenja að skip legðust þar við höfn en grænlenskir gestir voru sjaldséðir þótt þeir væru næstu nágrannar. Ínúítar frá Grænlandi höfðu vart sést á Íslandi þó einungis væru 300 kílómetrar á milli landa þar sem styst er.

Á vesturhluta Grænlands höfðu Danir verið í um 200 ár og haft mikil áhrif á samfélagið en öðru máli gegndi um austurhluta Grænlands þar sem eingöngu um nokkur hundruð manna bjuggu í grennd við Ammassalik.

„Þessi heimsókn var stórviðburður á Ísafirði, og stórviðburður á Íslandi líka því að kynni Ínúíta og Íslendinga voru nánast engin fram að þessu,“ segir Sumarliði R. Ísleifsson höfundur sýningarinnar. „Þess vegna köllum við sýninguna Fyrstu kynni: Grænlendingar á Ísafirði. Það er einfaldlega þannig að þó að Grænland sé næsti nágranni Íslands þá höfðu nánast engin samskipti verið milli þjóðanna. Einu undantekningar höfðu verið að Íslendingar höfðu ratað í störf á Grænlandi, íslenskir trúboðar höfðu verið þar á átjándu öld, handverksmenn áttu leið þar um eins og til dæmis Sigurður Breiðfjörð sem skrifaði síðar bók um veru sína þar,“ segir Sumarliði. „Fólkið var á leið sinni til Scoresbysunds,“ segir Sumarliði um ástæðu þess að fólkið kom við á Ísafirði og segir að í grunninn hafi pólitísk átök Dana og Norðmanna ráðið för. „Dönsk og norsk stjórnvöld höfðu deilt um landsvæði Austur-Grænlands,

Norðmenn höfðu um tíma nýtt auðæfin á þessum slóðum og veitt um strendur Austur-Grænlands. Norðmenn höfðu áhuga á því, af sögulegum ástæðum að fá viðurkenndan rétt sinn á hluta Austur-Grænlands. Þeir kölluðu það land Eiríks rauða. Dönsk stjórnvöld bregðast við á ýmsa vegu, meðal annars með því að hvetja íbúa á Ammassalik svæðinu til þess að flytjast búferlum til Scoresbysunds, en það er talsverð vegalengd þar á milli. Það svæði gerðu Norðmenn tilkall til en með þessu vildu Danir staðfesta rétt sinn til svæðisins,“ segir Sumarliði um tildrög ferðalags um 90 Ínúíta um Ísafjörð árið 1925.

Það voru því 70 manns frá Ammassalik og 20 manns frá Vestur-Grænlandi sem heimsóttu Ísafjörð þennan dag í ágúst. „Það sem mér finnst athyglisvert við þessa heimsókn er hvað mikið var lagt í móttökurnar á Ísafirði. Það má vel segja að Ísfirðingar hafi borið þetta fólk á höndum sér,“ segir Sumarliði en ísfirsk bæjaryfirvöld höfðu mikið fyrir því að móttökur yrðu hve bestar og skipuðu nefnd til undirbúnings. Þegar skipið hafði lagt að ætluðu yfirmenn um borð ekki að hleypa fólki frá borði en eftir talsverðar fortölur fékkst leyfi fyrir skipverja að fara í land en þó ekki fyrir alla. Vestur-Grænlendingar fengu allir landgönguleyfi en aðeins hluti Austur-Grænlendingana.

Ástæðan var sú að yfirmönnum skipsins þótti fólkið vera of illa til fara. Þau sem fengu að fara frá borði nutu hins vegar mikillar gestrisni frá bæjarbúum, sóttu vígsluathöfn í kirkjunni, var boðið í bíltúra, bíósýningu og loks til veislu við útivistarsvæði heimamanna í Tunguskógi. Við þetta má bæta að á Ísafirði hlaut prestvígslu sá sem átti að þjóna í hinum nýju heimkynnum.

Af vefsíðunni iaf:is /Gunnar Tryggvason

DEILA