Byggðastofnun fjallar um ferðalög íþróttaliða

„Íslandsmótið í knattspyrnu var háð í sumar eins og undanfarin rúmlega hundrað ár. Að horfa á einn fótboltaleik er góð skemmtun sem tekur kannski tvo tíma með öllu fyrir okkur áhorfendur. Fyrir leikmenn og starfsmenn leiksins tekur þetta mun lengri tíma eins og gefur að skilja,“ segir í færslu Byggðastofnunar frá því fyrir helgi þar sem ferðalög meistaraflokka karla og kvenna eru tekin fyrir með skemmtilegum hætti.

„Í flestum keppnum er leikið heima og að heiman og því getur oft verið aðalmálið að komast á útivöllinn og aftur heim. Í meistaraflokki karla og kvenna í sumar þurftu liðin að ferðast ríflega 413 þúsund km. til að leika á útivöllum og koma sér aftur heim. Það samsvarar u.þ.b. leiðinni til tunglsins, reyndar bara aðra leiðina, og ríflega 300 ferðum hringinn í kringum landið. Þar af keyrðu 10 „ferðaglöðustu“ liðin rétt tæplega 100 þúsund km. Þau voru:

  • Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir – í 2. deild kvenna – 12.020 km.
  • Leiknir Fáskrúðsfirði – í 2. deild karla – 11.336 km.
  • Fjarðabyggð í 2. deild karla – 11.336 km.
  • Einherji á Vopnafirði í 2. deild kvenna – 10.852 km.
  • Einherji á Vopnafirði í 3. deild karla – 10.602 km.
  • Höttur/Huginn á Egilsstöðum og Seyðisfirði í 3 deild karla – 10.596 km.
  • Vestri á Ísafirði í 1. deild karla – 9.584 km.
  • Þór Akureyri í 1. deild karla – 9.210 km.
  • Sindri á Hornafirði í 3. deild karla – 9.160 km
  • Völsungur á Húsavík í 2. deild karla – 8.538 km.

Á sama tíma var heildar ferðavegalengd liða í efstu deild karla 21.696 km. þar sem að KA á Akureyri þurftu að ferðast 8.490 km. eða 39% af heildar vegalengdinni sem ferðast þurfti í þeirri deild. Íslandsmeistarar Víkings í Fossvoginum í karlaflokki þurftu hins vegar bara að ferðast ríflega 1.000 km en stærstur hluti af þeim kílómetrum var ferðin norður til að spila við KA.

DEILA