Tíðasti aldur, meðalaldur og miðaldur við hjúskap hefur hækkað hjá bæði konum og körlum en árið 2001 var tíðasti aldur brúðguma 27 ára og brúða 28 ára. Árið 2020 var meðalaldur brúðguma 32 ár og brúða 30 ár. Meðalaldur karla við upphaf hjúskapar er venjulega um tveimur árum hærri en kvenna að því er kemur fram í upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Þó að fjöldi lögskilnaða hafi hækkað úr 545 árið 2000 í 687 árið 2020 er fjöldi þeirra stöðugur yfir tímabilið ef litið er á lögskilnaði á hverja 1.000 íbúa. Árið 2020 voru 1,9 lögskilnaðir á hverja 1.000 íbúa en 1,8 árið 2010. Á síðustu fimm árum hafa flestir þeirra sem skilja verið á aldrinum 35-39 ára eða 40-44 ára.
Þá hefur borgaralegum vígslum fjölgað mikið frá síðustu aldamótum og voru ríflega þriðjungur (37%) af öllum hjónavígslum árið 2020 þegar þær voru 677 talsins samanborið við 259 (14,6%) árið 2000. Fjöldi hjónavígsla er nokkuð breytilegur frá ári til árs. Þær voru alls 1.831 árið 2020, eða 5,0 á hverja 1.000 íbúa, samanborið við 2.075 árið 2019, eða 5,8 á hverja 1.000 íbúa.
Ef litið er til hinna Norðurlandanna var hjúskapartíðni hæst í Danmörku eða 5,3 á hverja 1.000 íbúa árið 2019. Á tímabilinu 2010 til 2019 lækkaði hjúskapartíðni í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð á meðan hún hækkaði yfir sama tíma á Íslandi. Lægsta hjúskapartíðni er í Finnlandi og Noregi eða um 4 hjónavígslur á hverja 1.000 íbúa.
Skilnaðartíðni er svipuð í nágrannalöndum okkar þar sem hún var 1,8 á hverja 1.000 íbúa í Danmörku og 1,9 í Noregi árið 2019. Skilnaðartíðnin var þó aðeins hærri í Svíþjóð eða 2,5 á hverja 1.000 íbúa og í Finnlandi eða 2,4. Til samanburðar voru 2,0 lögskilnaðir á hverja 1.000 íbúa á Íslandi árið 2019.