Auknar útflutningstekjur á öðrum ársfjórðungi

Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru 287 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi.

Það er um 32% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra. Í erlendri mynt er aukningin nokkuð meiri, eða um 38%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði um 5% hærra nú á öðrum fjórðungi en á sama tíma í fyrra.

Þrátt fyrir aukninguna eru útflutningstekjur þjóðarbúsins á fjórðungnum mun lægri en fyrir COVID-19, eins og blasir við á myndinni. Það má fyrst og fremst rekja til ferðaþjónustunnar, sem vegna áhrifa af faraldrinum á langt í land með að komast í fyrra horf. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku.

Séu tekjur af erlendum ferðamönnum teknar út fyrir sviga teiknast nokkur önnur og öllu jákvæðari mynd upp af þróuninni. Á þann skala námu tekjur þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuútflutningi 257 milljörðum króna og hafa þær aldrei verið meiri á öðrum ársfjórðungi á föstu gengi. Í verðmætum talið er aukningin um 60 milljarðar króna á milli ára, reiknað á föstu gengi. Stærsti einstaki liðurinn í þessari aukningu er loðna en tekjur af henni, einni og sér, námu 16,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi.

Útflutningstekjur af eldisafurðum voru 8 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi, sem er um 58% aukning á föstu gengi frá sama tíma í fyrra. Í verðmætum talið er aukningin 2,9 milljarðar króna á föstu gengi. 

DEILA