Sníkjudýr valda usla í laxfiskum

„Sjúkdómar eru einn af stóru þáttunum sem tengjast fiskeldi. Þess vegna er staðgóð þekking og öflug greiningarhæfni á sjúkdómsvöldum lykilatriði arðvæns fiskeldis. Þekking á stöðu sýkinga í villtum stofnum er einnig mikilvæg.“ segir Árni Kristmundsson deildarstjóri Tilraunastöðvar í meinafræði að Keldum á vefsíðu Háskóla Íslands.

Sérsvið Árna snúa að sjúkdómum í fiski og skelfiski. Áhugi hans í rannsóknum hefur því fyrst og síðast legið í smitsjúkdómum sem herja á fiska og skeldýr. Einkum hefur áhugi hans beinst að sníkjudýrum m.t.t. meinvirkni, faraldsfræði, þróunarfræði og líffræðilegs fjölbreytileika.

Þessi dægrin vinna Árni og samstarfsfólk að því að kanna tíðni, útbreiðslu og smitmagn smásæs sníkjudýrs í laxfiskum hér við land. Vísindafólkið hefur bæði beint sjónum að villtum laxfiskum og í eldi og kannað hve mikil áhrif sýkingar hafa á viðgang fiskanna.

Sníkjudýrið, sem heitir Parvicapsula pseudobranchicola, hefur um árabil valdið umtalsverðum afföllum í laxeldi, einkum í Norður-Noregi.

„Þar sem engar kerfisbundnar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum sjúkdómsvaldi á Íslandi, er þekking á honum mjög lítil, engin í villtum íslenskum stofnum laxfiska, þ.e. laxi, sjóbirtingi og sjóbleikju, og afar takmörkuð hjá eldisfiski. Okkur fýsti mjög að vita hver staða smits væri hérlendis.“

Mikilvægt að rannsaka lífríki vatns og sjávar

Árni segir að sýni hafi verið tekin úr hundruðum laxfiska, bæði villtum og í eldi. Greining sýna sé í gangi en ekki sé enn komin nein heildarmynd á rannsóknina enda mjög skammur tími liðinn frá því þessi óværa greindist fyrst hérlendis.

„Við upphaf árs 2019 greindist P. pseudobranchicola í fyrsta sinn við Ísland í Atlantshafslaxi í sjókvíum á Vestfjörðum. Hún uppgötvaðist í tengslum við aukin afföll í eldinu. Síðan þá hefur tegundin greinst ítrekað á þessu svæði og bendir margs til þess að hún valdi þar afföllum,“ segir Árni.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi rannsókna á lífríki hafsins og í ferskvatni. Villtir fiskistofnar leika stórt hlutverk í íslensku atvinnulífi og fiskeldi hefur verið mjög vaxandi grein.

„Gróflega má skipta þýðingu rannsókna í tvennt,“ segir Árni. „Í fyrsta lagi vinnum við hagnýtar rannsóknir sem stuðla að því að leysa ákveðin viðfangsefni samfélaginu öllu til heilla. Í öðru lagi erum við að sækjast eftir almennri þekkingu á lífríkinu. Mannskepnan hefur mikla þörf fyrir að þekkja og skilja lífríkið, hvort sem það skiptir fólkið sjálft einhverju eða varði samfélagið fjárhagslega eða ekki. Sem dæmi um þetta síðartalda getum við nefnt spurningar á borð við hvaða hagnýta þýðingu það hafi fyrir almenning að vita hve margar tegundir plantna, mýflugna eða bleikjustofna séu hér á Íslandi? Kannski ekki mikla. Margir hafa engu að síður áhuga á að vita það.“

DEILA