Enn eykst útflutningsverðmæti eldisafurða

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 2,6 milljörðum króna í maí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum að því er fram kemur í RADARINN , mælaborði sjávarútvegsins.

Miðað við sama mánuð í fyrra er um 54% aukningu að ræða í krónum talið. Gengi krónunnar var um 6% sterkara nú í maí en í maí í fyrra og er aukningin því nokkuð meiri í erlendri mynt, eða 63%. Þetta er stærsti maímánuður frá upphafi hvað verðmæti útfluttra eldisafurða áhrærir.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 15,6 milljarða króna. Það er 32% aukning á föstu gengi miðað við sama tímabil í fyrra.

Sé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur laxinn skilað næstmestu útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Loðnan kemur fast á hælana og mun vafalítið taka fram úr laxinum þegar maítölurnar bætast við, en sundurliðun niður á fisktegundir í maí liggur ekki enn fyrir. Hvort það verður loðnan eða laxinn sem mun skipa annað sætið í ár kemur síðar í ljós, en það er vandséð annað en að laxinn mun festa annað sætið rækilega í sessi á komandi árum.

DEILA