Afli í maí minni en í fyrra

Samtals var heildarafli í maí tæplega 108 þúsund tonn sem er 14% minna en í maí 2020 og munar þar mestu að minna veiddist af uppsjávarfiski

Botnfiskafli var rúmlega 46 þúsund tonn samanborið við 42 þúsund tonn í maí í fyrra. Af botnfisktegundum veiddist mest af þorski eða rúm 25 þúsund tonn. Uppsjávarafli í maí var mestmegnis kolmunni, 58 þúsund tonn samanborið við tæp 79 þúsund tonn í maí árið 2020.

Þrátt fyrir minni afla bendir allt til þess að um lítilsháttar verðmætaaukningu hafi verið að ræða.

Á tólf mánaða tímabili, frá júní 2020 til maí 2021, var landaður afli tæplega 1,1 milljón tonn sem er 12% meira magn en var landað á sama tólf mánaða tímabili ári áður. Þar af var uppsjávarafli 574 þúsund tonn, botnfiskafli 483 þúsund tonn og flatfiskafli rúm 25 þúsund tonn.

DEILA