Sveitarstjórnarfólks upplifir áreiti

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á föstudaginn í síðustu viku kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, helstu niðurstöður könnunar um reynslu sveitarstjórnarfulltrúa af áreiti.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að ríflega helmingur sveitarstjórnarfulltrúa (54%) hafi orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og var lítill sem enginn munur á milli kynja.

Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur höfðu orðið fyrir áreiti á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreiti í opinberu rými, t.d. á skemmtunum, í búð, o.s.frv. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíku áreiti á heimilum sínum.

Könnunin beindist að kjörnum fulltrúum bæjar- og sveitarstjórna og var lögð fyrir dagana 16. nóvember til 4. desember 2020. Alls var könnunin send á 466 kjörna fulltrúa og var heildarfjöldi þátttakenda 236. Heildarsvarhlutfall var því um 51%.

Niðurstöðurnar eru hluti af stærri rannsókn, sem Dr. Eva Marín Hlynsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, vinnur að ásamt samstarfsfólki á starfsaðstæðum og viðhorfum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa.

DEILA