Lífslíkur á Íslandi með þeim mestu í Evrópu

Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Meðalævilengd karla á Íslandi var 81,2 ár árið 2020 og meðalævilengd kvenna 84,3 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Á tíu ára tímabili (2011–2020) var meðalævi karla lengst í Sviss og Íslandi, 81,2 ár, og skipuðu þessi tvö lönd fyrsta sætið í Evrópu. Fast á hæla þeirra komu karlar í Liechtenstein (80,7), í Svíþjóð, Ítalíu og Noregi (80,5), og á Spáni (80,2). Styst var meðalævilengd karla í Úkraínu (67,4), Hvíta-Rússlandi (67,8) og Georgíu (69,4).

Á sama tíma var meðalævi kvenna á Spáni 86,0 ár og í Frakklandi 85,7 ár og skipuðu þær fyrsta og annað sæti í Evrópu. Næst á eftir komu konur í Sviss (85,3), Ítalíu (85,2), Liechtenstein (84,6), Lúxemborg (84,5) og á Íslandi og Finnlandi (84,3). Meðalævilengd kvenna var styst í Úkraínu (77,3) og í Aserbaísjan og Norður-Makedóníu (77,7).

DEILA