Í hvað fara skattarnir- Álagningarseðlar nú aðgengilegir

Einstaklingar geta nú séð á myndrænan hátt hvernig sköttum sem lagðir eru á tekjur þeirra er skipt á milli ríkis og sveitarfélags og í hvaða málaflokka þeir renna. Þetta má sjá á nýjum og breyttum álagningarseðlum einstaklinga, sem eru nú aðgengilegir á vef Skattsins.

Breytingin er unnin að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en markmiðið er að auka gagnsæi um hvert skattgreiðslur almennings renna. Þannig fá skattgreiðendur nú yfirlit um hve háa fjárhæð þeir reiddu af hendi til heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, samgöngumála o.s.frv., en stefnt er að því að í framtíðinni geti skiptingin orðið enn ítarlegri.

Á nýjum álagningarseðli kemur heildarniðurstaða álagningar fram í einni mynd og hægt er að skoða hvernig einstakar fjárhæðir í álagningunni eru reiknaðar út. Skoða þarf línuna „Til greiðslu/inneign“ til að sjá uppgjör hvers gjalddaga fyrir sig þar sem skýrt kemur fram hvort um er að ræða skuld eða inneign. Inneign er sýnd með grænum lit sem plústala og skuld með rauðum lit sem mínustala.

Barnabætur eru sérgreindar í yfirlitinu þar sem þeim er ekki skuldajafnað nema fyrirframgreiðsla þeirra hafi verið of há.

Neðst í yfirlitinu birtist skipting skattgreiðslna af tekjuskattsstofni og hvernig það hlutfall skiptist á milli ríkis og sveitarfélags. Þar er einnig að finna skiptingu á milli tekjuskatts til innheimtu og á álögðu útsvari til sveitarfélags.

DEILA