Aðdragandi að byggingu Alþingishússins

Í aðdraganda 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1874 kom fram sú hugmynd að minnast ætti tímamótanna með byggingu veglegs húss yfir starfsemi Alþingis og söfn landsins, Stiftsbókasafnið og Forngripasafnið. Þinghaldið hafði þá farið fram í Latínuskólanum í Reykjavík síðan 1845 og söfnin tvö bjuggu við þrengsli uppi á lofti Dómkirkjunnar.

Byggingarnefnd var skipuð til að annast framkvæmdir og réði hún Ferdinand Meldahl, danskan húsameistara og forstöðumann Fagurlistaskólans í Kaupmannahöfn, til að teikna húsið. Danskur yfirsmiður var ráðinn, Fredrik Anton Bald.

Tryggva Gunnarssyni alþingismanni var falið að vinna með Meldahl að teikningunum og afla byggingarefnis í Kaupmannahöfn. Í ævisögu Tryggva segir að mikil áhersla hafi verið lögð á það við hann að semja skilmerkilega um kaup og kjör til þess að fyrirbyggja að reikningar kæmu eftir á. Engu síður fór kostnaður þó 25% fram úr áætlun og alls kostaði byggingin um 125 þúsund krónur. Sú upphæð var á þeim tíma um þriðjungur af fjárlögum ársins.

Í fyrstu var ætlunin að reisa þinghúsið við Arnarhól, á þeim slóðum þar sem Ingólfsstræti er nú. Byrjað var að grafa þar grunn og flytja byggingarefni á staðinn en allmiklar deilur höfðu staðið um byggingarstaðinn. Þegar yfirsmiðurinn Bald kom til landsins um vorið 1880 fékk hann því framgengt að ný lóð var fengin fyrir þinghúsið á norðurbakka Reykjavíkurtjarnar. Spildan var í eigu hjónanna Halldórs Kr. Friðrikssonar og Leopoldinu Friðriksson sem notuðu hana fyrir matjurta- og skrúðgarð sinn. Var kaupverð lóðarinnar 2.500 krónur eða 2,5% af áætluðum byggingarkostnaði hússins og þótti mörgum hún firnadýr.

AF VEFSÍÐU ALÞINGIS

DEILA