Ráðherra opnar Hornstrandastofu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í gær formlega Hornstrandastofu á Ísafirði. Í ljósi samkomutakmarkana ávarpaði ráðherra gesti í gegnum fjarfundarbúnað.

Hornstrandastofa er gestastofa fyrir Friðlandið á Hornströndum og er til húsa í sögufrægu húsi, Björnsbúð í miðbæ Ísafjarðarbæjar.

Í gestastofunni hefur verið sett upp sýning sem dregur fram meginaðdráttarafl friðlandsins; mikilfengleg fuglabjörg, tegundaauðgi og melrakkann, en Hornstrandir hafa verið griðland hans síðan árið 1995.

Við opnunina fór Jakob Falur Garðarsson yfir sögu Björnsbúðar og tengsl hennar við Hornstrandir. Þá kynnti Kristín Ósk Jónasdóttir, teymisstjóri Umhverfisstofnunar og sérfræðingur fyrir friðlandið, sýninguna og tilurð hennar. Á sýningunni m.a. að finna myndbandsverk um bjargfugla í Súlnastapa utan við Hælavíkurbjarg og þá hefur umhverfi við eldhúsglugga á Hornströndum verið endurskapað, sem gefur gestum tækifæri til að upplifa margbrotið útsýni líkt og fólk sem þar bjó áður eða dvelst að sumri upplifði.

DEILA