Fiskeldi og slysasleppingar

Fiskeldi. Myndin er úr safni BB.

Lax- og silungsveiðisvið Fiskistofu hefur það hlutverk að bregðast við og stjórna veiðum ef slysaslepping verður úr fiskeldi.

Samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum, ber Fiskistofu einnig að rannsaka að eigin frumkvæði ef grunur vaknar um að fiskar hafi sloppið úr eldi. Fiskistofa hefur netabúnað til taks á starfsstöðvum sínum fyrir það verkefni til að geta brugðist við ef grunur vaknar um að eldisfiskar hafi sloppið.

Árið 2020 bárust Fiskistofu tvær tilkynningar vegna mögulegra slysasleppinga á laxi og ein tilkynning vegan hugsanlegrar slysasleppingar á regnbogasilungi.

Tilkynning barst frá Arnarlaxi hf. í byrjun apríl þar sem í ljós kom metra löng rifa á kví 6 í Hringsdal á 1,5 m dýpi. Gert var við gatið, viðbragðsáætlun fyrirtækisins virkjuð og net lögð umhverfis umrædda kví. Ekki veiddist lax í netin. . Önnur tilkynning frá Arnarlaxi í apríl leiddi til sömu niðurstöðu og Fiskistofa aðhafðist ekkert frekar vegna þessara tilvika.

Tilkynning barst frá fiskeldisfyrirtækinu Hafrúnu hf. upp úr miðjun mars þar sem kom í ljós gat á einni kví með regnbogasilungi í eldi í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp. Virðist sem nudd frá festingum hafi orsakað gatið. Gert var strax við gatið, viðbragðsáætlun fyrirtækisins virkjuð og net lögð við umrædda kví. Í framhaldinu voru gerðar ráðstafanir svo þetta gerðist ekki aftur. Ekki veiddist regnbogasilungur í netin. Fiskistofa aðhafðist ekki frekar vegna málsins.

Farin var í lok júlí sérstök eftirlitsferð í Ketildali við Arnarfjörð á Vestfjörðum vegna gruns um að eldislax væri til staðar í ám á svæðinu. Rannsakaðar voru þrjár ár í Bakkadal, Fífustaðadal og Selárdal. Veiddust 3 laxar og voru tekin sýni af þeim og send til Hafrannsóknastofnunar til erfðagreiningar. Ekki báru fiskarnir dæmigerð útlitseinkenni eldisfiska. Niðurstöður erfðagreiningar gáfu ekki til kynna að fiskarnir væru af eldisuppruna. Fiskarnir voru merktir og síðan sleppt.

Þannig má segja að fiskeldi á árinu 2020 hafi gengið vel með tilliti til slysasleppinga.

DEILA