MUNUR Á ATVINNUTEKJUM EFTIR MENNTUNARSTIGI MINNKAR

Munur á atvinnutekjum einstaklinga á aldrinum 25 til 64 ára eftir menntunarstigi hefur heldur minnkað með árunum.

Ef horft er til síðustu tíu ára má sjá að árið 2009 voru einstaklingar með starfs- og framhaldsmenntun með 19% hærri atvinnutekjur en þeir sem voru eingöngu með grunnmenntun. Árið 2019 var þessi munur kominn niður í 10%.

Þá fór munur á atvinnutekjum einstaklinga með háskólamenntun og þeirra sem voru með grunnmenntun úr 61% í 39% á tíu árum. Rétt er að taka fram að á þessu tímabili hefur fjölgað hlutfallslega í hópi einstaklinga með háskólamenntun en þeim fækkað sem eru með grunnmenntun.

Í því samhengi má benda á að atvinnutekjur einstaklinga með grunnmenntun hafa aukist mest, eða um 39%, á þessu tíu ára tímabili en á sama tíma hafa atvinnutekjur einstaklinga með starfs- og framhaldsmenntun aukist um 28% og háskólamenntaðra minnst eða um 20%.

Hafa ber í huga að um er að ræða atvinnutekjur óháð vinnutíma einstaklinga. Með atvinnutekjum er hér átt við launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, ökutækjastyrk, dagpeninga og hlunnindi. Auk þess teljast reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna.

DEILA