Miðstjórn ASÍ varar við áformum um opnari landamæri

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn tillögu dómsmálaráðherra þess efnis að gerð verði breyting á ákvæðum reglugerðar um för fólks yfir landamæri. Eftir breytingu mun almennt bólusetningarvottorð nægja til að heimila ferðir yfir ytri landamærin og inn í landið, óháð því hvort það séu þegnar innan Schengen svæðisins eða utan. Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja fögnuðu mjög þessum tíðindum.

Fjölmargir hafa þó lýst efasemdum sínum við þessi áform stjórnvalda og telja þau ekki tímabær. Meðal annars hefur verið bent á að meðan stærsti hluti þjóðarinnar hefur ekki fengið bóluefni gegn Covid-19 veirunni verði töluverð hætta á að smit berist inn í landið og nái útbreiðslu. Sömuleiðis er bent á að fölsuð bólusetningarskírteini eru þegar farin að ganga kaupum og sölum erlendis.

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar við áformum um opnari landamæri meðan bólusetningar hafa ekki náð þeim markmiðum sem að er stefnt,“ segir í tilkynningu frá ASÍ. „Ávinningurinn af þeim áformum er óljós. Horfa ber til þess að smit eru enn afar útbreidd í fjölmörgum löndum heims og þar á meðal eru nýrri afbrigði af veirunni sem enn er takmörkuð þekking á. Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið á Íslandi að fólk sé frjálst ferða sinna innanlands í sumar og geti notið sumarleyfa og samvista án hertra aðgerða. Hætt er við að ferðaþjónustan og tengdar greinar geti borið meiri skaða af en ella ef opnunin verður til þess að grípa þurfi til harðari sóttvarnaraðgerða innalands,“ segir miðstjórn ASÍ.

DEILA