Á miðvikudag fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Þrettán nemendur úr 7.bekk grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, lásu sögubrot eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk.
Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri var kynnir hátíðarinnar og Herdís M. Hübner hélt erindi um lestur. Dagný Rut Davíðsdóttir, sem varð í 2.sæti keppnninnar í fyrra, kynnti skáld keppninnar.
Flutt voru tónlistaratriði af nemendum Tónlistarskóla Ísafjarðar. Lúðrasveit T.Í. flutti 2 lög, Þórunn Hafdís Stefánsdóttir lék á pianó lagið Stingum af og Katrín Fjóla Alexíusdóttir lék á gítar lagið Raindrops keep falling on my head.
Dómarar keppninnar að þessu sinni voru þau Bergþór Pálsson, Jóna Símonía Bjarnadóttir og Kristbjörg Sunna Reynisdóttir.
Niðurstaðan varð sú að Margrét Mjöll Sindradóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði sigraði, í öðru sæti varð Marcin Anikiej frá Grunnskólanum á Suðureyri og Jón Guðni Guðmundsson frá Grunnskóla Bolungarvíkur hafnaði í því þriðja.