Ísland á meðal ríkja sem berjast gegn drauganetum

Í þriðjudaginn var síðasti dagur alþjóðlegrar ráðstefnu um plastmengun á norðurslóðum, sem haldin var á vegum ríkisstjórnar Íslands og Norrænu ráðherranefndarinnar.

Við upphaf ráðstefnunnar tilkynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, að Ísland væri nú komið í hóp ríkja sem berjast gegn svokölluðum drauganetum. Ísland er þar með komið í bandalag, Global Ghost Gear Initiative (GGGI), með 17 öðrum ríkjum, auk fjölda félagasamtaka og fyrirtækja, sem leita leiða til að takast á við vandann sem fylgir yfirgefnum og týndum veiðarfærum í hafinu, svokölluðum drauganetum.

Ráðstefnan var haldin vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu en Ísland hefur með formennskunni meðal annars lagt áherslu á aðgerðir til að draga úr plastmengun á norðurslóðum. Upphaflega átti að halda ráðstefnuna í Reykjavík í apríl 2020, en vegna heimsfaraldursins var henni frestað og hún færð yfir á netið. 

Á fjórða hundrað manns tóku þátt í ráðstefnunni. Vísindamenn víða að úr heiminum hafa kynnt niðurstöður rannsókna á plastmengun, bæði örplasts og stærri plasthluta, og áhrifa plasts á lífríki.

Tæplega hundrað erindi um hina fjölmörgu þætti plastamengunar hafa verið til umfjöllunar og á síðasta degi ráðstefnunnar var rætt um næstu aðgerðir sem koma til greina til að fást við vandann sem hlýst af vaxandi plastmengun á norðurslóðum.

DEILA