Ferðum Baldurs fjölgað

Vegagerðin og Sæferðir, rekstraraðili ferjunnar Baldurs, hafa komist að samkomulagi um að bregðast við lélegu ástandi vega í Gufudalssveit og Reykhólasveit með því að fjölga ferðum ferjunnar í tvær á dag á miðvikudögum og fimmtudögum ef þörf krefur. Vegagerðin og Sæfari eru þannig að verða við óskum flutningsaðila og laxeldisfyrirtækja.

Að auki hafa sveitarfélög á svæðinu ákveðið nýta ferðir úr svokölluðum aukaferðapotti sem er samningsbundinn, til þess að bæta við ferðum á þriðjudögum.

Núverandi siglingaáætlun gerir ráð fyrir að Baldur sigli tvisvar á dag mánudaga og föstudaga en einu sinni á dag alla aðra daga utan sunnudaga þegar ekki er siglt.

Með þessum aðgerðum er möguleiki að sigla tvisvar á dag alla virka daga. Aukaferðirnar eru þó aðeins farnar ef kallað er eftir því sérstaklega.

Ástand vega í Gufudalssveit og Reykhólasveit er með versta móti þessa dagana. Spilar veðurfar stóran þátt í því hvort vegir séu færir fyrir flutningabíla. Fyrrgreindar mótvægisaðgerðir, sem hugsaðar eru til loka mars, eru því að mati Vegagerðarinnar nauðsynlegar til að stuðla að öruggum og greiðum samgöngum frá sunnanverðum Vestfjörðum. 

DEILA