Bjarni Jónsson vill 1. sæti hjá VG í Norðvesturkjördæmi

Í tilkynningu sem Bjarni Jónsson hefur sent frá sér, en hann skipaði annað sæti hjá Vinstri grænum í síðustu kosningum, segir:

Ég gef kost á mér til að leiða framboðslista VG í NV kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar í 1. sæti og óska eftir stuðningi til þess í forvali hreyfingarinnar sem framundan er. Ég tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum landsbyggðarinnar og vil gjarna beita kröftum mínum í þágu kjördæmisins.

Mín áherslumál í sveitarstjórn sem og á vettvangi landsmálanna hafa verið að styrkja innviði, treysta búsetu og fjölskylduvænt samfélag á landsbyggðinni. Í því felst öruggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, menntun, gott umhverfi, samgöngubætur og fjölbreytt atvinnutækifæri við allra hæfi. Grunnstoðir atvinnulífs víða í NV kjördæmi byggja á matvælaframleiðslu og að vel sé búið að þeim atvinnugreinum og eins nýsköpun og frumkvöðlastarfi í þeim greinum, sem fleirum sem geta dafnað á svæðinu.

Þá eigum við þrjá öfluga landsbyggðar háskóla og háskóla- og rannsóknasetur sem skapa svæðinu mikla sérstöðu og tækifæri sem verður að styðja með öflugum hætti og það sama á við framhaldsskólana okkar. Þá brenn ég einnig fyrir grunngildum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um náttúruvernd, jöfnuð og byggðajafnrétti, sem eiga svo sannarlega erindi til Íslendinga hvar sem þeir búa.

DEILA