Sóttvarnarreglur brotnar á Vestfjörðum

Lögreglan á Vestfjörðum er þessa dagana að rannsaka tvö mál sem varða meint brot á sóttvarnareglum.

Í öðru tilvikinu er um að ræða meint brot sem talið er að hafi átt sér stað um nýliðna helgi á vínveitingastað í umdæminu. Við eftirlit lögreglu þar kom í ljós að sóttvarnareglur voru ekki í heiðri hafðar, án þess að hin meintu brot verði tíunduð hér, enda málið til rannsóknar.

Í hinu tilvikinu er til rannsóknar meint brot manns sem ekki virðist hafa virt sóttvarnareglur er lúta að skimunarsóttkví.

En maður þessi, sem var nýkominn til landsins, var stöðvaður af lögreglu við akstur bifreiðar á Ísafirði í síðustu viku, en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Í fórum mannsins fundust nokkrar ætlaðar kannabisplöntur sem hann kannaðist við að eiga. Vegna þessara afskipta þurftu þrír lögreglumenn að fara í úrvinnslusóttkví í tvo sólarhringa.

DEILA