Hertar reglur um vegaframkvæmdir

Vestfirsku malarvegirnir eiga það til að verða ansi holóttir. Mynd: Hallgrímur Sveinsson.

Á fjarfundi sem Vegagerðin efndi til í gær kom m.a. fram að stórauknar kröfur verða gerðar til verktaka og eftirlitsaðila með framkvæmdum þar sem lagt er út malbik og klæðing.

Gerðar verða ýmsar nýjar kröfur og aðrar auknar til að tryggja að ekki skapist aðstæður að lokinni framkvæmd sem geta reynst hættulegar vegfarendum.

Morgunfundurinn er hluti fundaraðar sem haldin verður í vetur og lýkur í vor með ráðstefnu um yfirlagnir á Íslandi.
Á fundunum sem fylgja í kjölfar þessa fyrsta fundar verður fjallað um vetrarþjónustu, bikblæðingar og þjóðvegi á hálendi Íslands.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar flutti ávarp, Pétur Pétursson hjá PP ráðgjöf fræddi fundargesti um muninn á klæðingu og malbiki og hvernig útlögn og framleiðsla þessara efna fer fram. Birkir Hrafn Jóakimsson verkefnastjóri hjá Vegagerðinni greindi frá þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
Í lokin svöruðu frummælendur spurningum áhorfenda.

Fram kom í máli Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðinnar, að auka eigi fræðslu og þekkingu til aðila sem taka að sér verk fyrir Vegagerðina. Þetta séu tímabærar breytingar og öryggið mun aukast um leið.

Eitt af því sem verður gert og al­menn­ing­ur ætti að finna fyr­ir er að bæta merk­ing­ar þar sem nýtt mal­bik hef­ur verið lagt.
Mark­miðið er að draga úr um­ferðar­hraða og þá sér­stak­lega þegar blautt er.
Ná­ist ekki að hemla­prófa að fullu verður hraðatak­mörk­un­um beitt. Hér má sjá frek­ari út­list­un strang­ari kröf­um Vega­gerðar­inn­ar.

DEILA