Framkvæmdir á Djúpvegi

Tvær framkvæmdir voru í gangi á Djúpvegi í Ísafjarðardjúpi á síðasta ári. Annars vegar í Hestfirði og Seyðisfirði og hins vegar um Hattardal í Álftafirði. Framkvæmdum í fyrra verkinu er lokið en framkvæmdir í Álftafirði klárast í sumar.

Djúpvegur (61-34) Leiti – Eyri

Verkið Djúpvegur (61-34) Leiti – Eyri var boðið út árið 2018 og tilboð opnuð í lok þess árs. Samið var við Suðurverk hf. um framkvæmdina en Vegagerðin sá um eftirlit með verkinu.

Framkvæmdir hófust í maí 2019 en verkefnið snerist um endurbyggingu og endurbætur á sjö km kafla Djúpvegar í Hestfirði og Seyðisfirði með tilheyrandi lagfæringum á tengingum.

Guðmundur Óli K Lyngmo eftirlitsmaður Vegagerðarinnar segir endurbæturnar kærkomnar. „Þarna var vegur sem var hálf breidd, með frostlyftingu að vetri og lélega kanta. Bílar áttu ekki gott með að mætast á þessum vegkafla en á veginum voru útskot. Þá voru tvær hættulegar tengingar inn á þjóðveg og á Eyðinu var brött og kröpp brekka sem varð til þess að bílstjórar áttu oft í mesta basli með að komast yfir í hálku á veturna.“ Guðmundur Óli bætir við að gamla vegstæðið hafi verið þannig staðsett að þar safnaðist oft fyrir snjór. Miklar breytingar verða með nýja veginum. „Nú er kominn þarna nýr, breiðari og betri vegur, 7,80 m breiður sem auðveldar allar samgöngur.“

Guðmundur Óli segir framkvæmdirnar hafa gengið ágætlega en einhver seinkun hefur orðið á verkinu vegna slæms veðurs síðastliðið vor. „Ekki náðist að setja seinna lag af yfirborðsklæðingum fyrir haustið 2020, það verður því klárað árið 2021.“ Hann segir Covid einnig hafa haft nokkur áhrif þar sem starfsmenn hafi ekki getað komið vestur vegna smithættu. „En umferð hefur verið hleypt á vegkaflann frá Hestfirði innan við eyðið út að Eyri í Seyðisfirði.“

Djúpvegur (61-35) um Hattardal

Verkið Djúpvegur (61-35) um Hattardal var boðið út í mars 2020 og tilboð opnuð í apríl. Samið var við Tígur ehf. í Súðavík en Vegagerðin sér um eftirlit.

Framkvæmdir hófust 6. maí 2020 en verkið snýst um nýbyggingu 2,6 km vegarkafla ásamt smíði á nýrri 19 m langri brú á Djúpvegi um Hattardal í Álftafirði.  Vegurinn verður 7,8 m breiður með vegöxlum. Brúin yfir Hattardalsá verður eftirspennt plötubrú í einu hafi, 19 metrar að heildarlengd og með níu metra breiðri akbraut og 0,5 m breiðum kantbitum, alls 10 metra breið.

Guðmundur Óli segir að á þessum stað hafi verið kominn tími á framkvæmdir. „Þarna var fyrir einbreið brú sem var komin til ára sinna og með takmarkaða burðargetu. Vegurinn var í hálfri breidd og orðinn lélegur. Bílar áttu ekki gott með að mætast þarna nema í útskotum.“

Með nýjum vegi og tvöfaldri brú verða allar samgöngur á þessum vegarkafla mun auðveldari. „Framkvæmdir hafa gengið vel þó uppsteypa á brúnni hafi verið á eftir áætlun þar sem yfirborðssteypa komst ekki vestur vegna veðurs og smithættu. Verkið er þó að mestu á áætlun. Umferð hefur verið hleypt á brúnna og vegkaflana að og frá henni. Eftir á að setja burðarlag á veginn sem verður gert í vor. Þá á eftir að klæða vegkaflann, koma fyrir vegriðum og laga vegtengingar í Hattardal bæði að sunnan- og norðanverðu. Endanleg verklok eru áætluð 15. júlí.“

DEILA