Endurbætur á Reykhólahöfn

Bryggjan á Reykhólum

Núna á dögunum var kveikt á nýjum stefnuvita á sjóvarnagarðinum við höfnina á Reykhólum. Stefnuvitinn er til leiðbeiningar um staðsetningu skipa í innsiglingarrennu að höfninni. Hann virkar í stuttu máli þannig að 3 ljós eru á vitanum, rautt, hvítt og grænt, ef eingöngu hvíta ljósið er sýnilegt, eru sjófarendur á réttum stað í rennunni.

Einnig var sett hliðarmerki austan við enda innsiglingarrennunnar fjær höfninni, sem er grænn staur eða bauja með ljósmerki.

Á framkvæmdaáætlun siglingasviðs Vegagerðarinnar 2021 – 2024 er endurbygging og stækkun stálþilsbryggjunnar. Stækkunin er lenging á viðlegukanti til SV, þannig að bryggjan sem er eins og L í laginu verður T laga.

Bætir það umtalsvert aðstöðu fyrir stærri flutningaskip, en erfiðleikar hafa stundum verið með þau við bryggjuna, ekki síst í hvassviðri vegna þess að þau eru lengri en viðlegukanturinn.  Stefnt er að því að bjóða verkið út á þessu ári og ættu framkvæmdir að geta hafist í upphafi næsta árs.

DEILA