Bólusetning langt komin í lok júní

Gera má ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga hér á landi fyrir lok júní næstkomandi með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna sem öll eru með markaðsleyfi og komin í notkun hér á landi. Þetta er mun meira en áður var vænst.

Mestu munar annars vegar um nýjan samning Evrópusambandsins við Pfizer sem tryggir Íslandi bóluefni fyrir 25.000 til 30.000 manns strax á öðrum ársfjórðungi, til viðbótar fyrri samningum.

Gert er ráð fyrir að Ísland undirriti samning um aukið magn bóluefna frá Pfizer á grundvelli nýs samnings Evrópusambandsins fyrir lok þessarar viku.  Einnig mun aukin framleiðslugeta AstraZeneca hafa áhrif. Alls verður rúmlega 280.000 einstaklingum boðin bólusetning hér á landi, þ.e. öllum sem eru 16 ára og eldri.

Vænta má bóluefna frá fleiri lyfjaframleiðendum á öðrum ársfjórðungi að því gefnu að þeim verði veitt markaðsleyfi á næstunni eins og að er stefnt. 

Fleiri bóluefni í vændum á öðrum ársfjórðungi

Gert er ráð fyrir að Evrópska lyfjastofnunin leggi mat á bóluefni Janssen og Curevac innan skamms en mat hennar er forsenda markaðsleyfis. Áætlað er að afhending þessara bóluefna geti hafist á öðrum fjórðungi ársins. Þá er bóluefni frá Novavax á leiðinni sem Ísland getur fengið hlutdeild í á sömu forsendum og gilt hafa um aðra samninga Evrópusamstarfsins. 

Bólusetningardagatal í smíðum

Sóttvarnalæknir vinnur að gerð bólusetningardagatals á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um afhendingu bóluefna á næstu mánuðum.

Þar verða birtar upplýsingar um forgangshópa og hvenær einstaklingar í hverjum hópi geta vænst þess að fá boð um bólusetningu.

DEILA