Atvinnuþátttaka aldrei minni

Segja má að nánast allt árið 2020 hafi áhrif kórónuveirufaraldursins (Covid-19) verið merkjanleg á íslenskum vinnumarkaði.

Ein af birtingamyndunum er að atvinnuþátttaka 16-74 ára fyrir árið í heild hefur ekki mælst minni í vinnumarkaðsrannsókninni frá því mælingar hófust árið 1991.

Árið 2020 mældist atvinnuþátttaka að jafnaði 79,6% sem er í fyrsta sinn sem mælingin er undir 80%. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra, það er vinnuaflsins, af mannfjölda.

Hlutfall starfandi fólks mældist 75,3% árið 2020 og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2011.

Atvinnuleysi mældist 5,5% að jafnaði yfir árið sem er nokkuð minni en lesa má úr tölum Vinnumálastofnunar .

Ein ástæða þess er að fleira fólk en áður fellur utan vinnumarkaðar, það er að segja er ekki með starf, leitar ekki að starfi og/eða er ekki tilbúið til að hefja störf innan ákveðins tíma.

Eftir sem áður er það án vinnu og mögulega skilgreinir það sig sjálft sem atvinnulaust. Aldrei áður hafa jafn margir verið í þessum hópi en árið 2020 eða um 53.000 manns sem er 20,4% af mannfjölda 16-74 ára.