Stofnvísitala þorsks í frjálsu falli segja smábátasjómenn

Samkvæmt skýrslunni er stofnvísitala þorsks í frjálsu falli, lækkar nú fjórða árið í röð og er rúm 40% af því sem hún mældist í haustralli árið 2017.

Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var þann 29. desember var meðal annars til umræðu nýútkomin skýrsla Hafrannsóknastofnunar: Stofnmæling botnfiska að haustlagi 2020.

Í ályktun stjórnar Landsambandsins kemur fram hörð gagnrýni á þær aðferðir sem Hafrannsóknarstofnun notar til ráðgjafar um fiskveiðistjórnun en þar segir meðal annars:

„Samkvæmt skýrslunni er stofnvísitala þorsks í frjálsu falli, lækkar nú fjórða árið í röð og er rúm 40% af því sem hún mældist í haustralli árið 2017.

Mælingar úr haustralli stofnunarinnar staðfesta niðurstöður úr vorralli 2020 að stærð árganga 2014 og 2015 (5 og 6 ára) er langt frá því sem gert var ráð fyrir. Árgangarnir hafa látið verulega á sjá. Líklegast er að þeir hafi liðið fyrir vanveiði undanfarinna ára þar sem magn af stórþorski hefur vaxið gríðarlega. Samdráttur í helstu fæðutegundum stórþorsksins, þ.e. loðnu, síld og kolmunna, virðist hafa stuðlað að stórauknu sjálfráni. Það hefur aukist um 100% milli ára.

Stjórn LS skorar á sjávarútvegsráðherra að efna til gagngerrar endurskoðunar á þeirri aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til grundvallar ráðgjöf sinni undanfarna áratugi. Það er hverjum manni augljóst að hún stenst ekki þær væntingar sem gerðar voru til hennar.

DEILA