Árneskirkja í Trékyllisvík

Í Trékyllisvík í Árneshreppi eru tvær kirkjur. Hér segir frá þeirri eldri.

Árneskirkja er timburhús, 9,20 m að lengd og 4,98 m á breidd.

Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er klædd listaþili en þök bárujárni. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum og miðri suðurhlið.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir gluggar, einn minni ofarlega á kórbaki en fjögurra rúðu krosspóstagluggi á framstafni.
Bogadregið hljómop með hlera fyrir er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og um þær skoraðar flatsúlur og bjór yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór. Setuloft á bitum og sex stoðum er yfir framkirkju og sveigður stigi í suðvesturhorni. Veggir eru klæddir spjaldaþili og efst á veggjum í kór er strikasylla sem leidd er inn á kórgafl og frambrún setulofts.
Í fremsta stafgólfi á kirkjulofti er opið upp í turninn.
Veggir á setulofti eru klæddir strikuðum panelborðum.
Yfir því er panelklætt risloft en bogadregið efst undir mæni.
Yfir kór er reitaskipt risloft og lágboga hvelfing efst undir mæni.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989 en kirkjan var byggð árið 1850.

Á árunum 1886–1891 var kirkjunni breytt og var þá m.a. loft yfir framkirkju lengt, hvelfing smíðuð yfir kór og strikasylla undir hana efst á veggjum, bogagluggar settir í kirkjuna og þakturn smíðaður.

DEILA