Áramóta­kveðja bæjar­stjórans í Vesturbyggð

Loksins sjáum við fyrir endann á árinu 2020, sem hefur í senn verið skrýtið og flókið en einnig lærdóms­ríkt og fært okkur ný tæki­færi. Heims­far­ald­urinn hefur sett svip sinn á þetta ár og mun gera það eitt­hvað áfram inn í nýja árið. Ég vil nota tæki­færið og fara nokkrum orðum um þau góðu verk­efni og áskor­anir sem hafa verið á árinu sem er að líða og eru framundan eru hjá Vest­ur­byggð á nýju ári.

Árið hófst með hefðbundnum vetrarlægðum með tilheyrandi samgönguröskunum. Blessunarlega var lítið um rýmingar vegna ofanflóðahættu, en sú mikla hætta sem býr í fögru fjöllunum okkar minnti óþægilega á sig í kjölfar flóðanna á Flateyri í upphafi ársins. Vetrarþjónusta á vegunum okkar, innan svæðis sem og utan þess var fulltrúum Vesturbyggðar hugleikin á árinu eins og árin á undan. Ég hef ekki tölu á þeim bókunum bæjarráðs og bæjarstjórnar, bréfaskrifum og fundum sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa átt með Vegagerðinni, þingmönnum og fyrirtækjum á svæðinu þar sem rætt er um vetrarþjónustu og nauðsyn þess að efla hana enn frekar, svo hjól samfélagsins og atvinnulífsins nái að snúast með eðlilegum hætti, að minsta kosti þar til við fáum jarðgöngin á milli fjarðanna okkar.

Við náðum að njóta saman á þorrablótum á Bíldudal, Patreksfirði og Barðaströnd í upphafi ársins, áður en heimsfaraldurinn færði okkur samkomutakmarkanir. Við höfum þurft að fresta ýmum mikilvægum viðburðum og samverustundum, sem er mikilvægur hluti af samfélaginu okkar. Patreksdeginum var frestað, Sjómannadagurinn og 17. júní hátíðarhöld fóru fram með breyttu sniði og Skjaldborgarhátíðin, sem hlaut Eyrarrósina 2020, fór ekki fram með hefðbundnum hætti.

Stjórnendur og starfsmenn Vesturbyggðar hafa unnið mikilvægt og gott starf við skipulag starfsemi sveitarfélagsins við þær aðstæður sem faraldurinn hefur haft í för með sér. Mikið álag hefur verið á starfsfólki skólanna okkar og vil ég þakka öllu okkar frábæra framlínustarfsfólki fyrir að standa vaktina. Þá hefur öflug samstaða og samvinna allra íbúa orðið til þess að við erum að komast vel í gegnum faraldurinn og vil ég hér með þakka íbúum í Vesturbyggð þá miklu þolinmæði og samvinnu sem við sem samfélag höfum sýnt við að takast á við þær aðstæður sem kórónuveiran hefur skapað á liðnu ári.

Kórónuveirufaraldurinn hefur þó líka haft jákvæð áhrif, þar sem með auknum fjarfundum fækkaði ferðalögum verulega og ferðakostnaður sveitarfélagsins drógst verulega saman á árinu. Við stöndum einnig jafnari fæti gagnvart höfuðborgarsvæðinu en áður var, þegar kemur að fundum og ráðstefnum. Þá njótum við á landsbyggðinni ýmissa viðburða í gegnum skjáinn, sem áður var hreinlega ekki í boði. Þrátt fyrir að við vonum að mannamót komist í eðlilegt horf eftir faraldurinn, þá er það von mín að við munum áfram nýta tæknina í bland við hefðbundin mannamót og samkomur.

Atvinnuástand í Vesturbyggð er ákaflega gott og mörg laus störf hafa verið auglýst innan svæðisins á árinu. Atvinnuleysi er því með minnsta móti og mörg spennandi atvinnutækifæri í boði. Öflugt atvinnulíf er á svæðinu og hefur þar mest áhrif fiskeldi, sjávarútvegur og kalkþörungavinnsla. Nýjir skólastjórnendur tóku til starfa haustið 2020 og kvöddum við einnig góða samstarfsmenn á árinu. Mönnun við skólastofnanir okkar hefur ekki gengið eins vel og best verður á kosið og hafa skólastjórnendur tekist á við það verkefni af mikilli festu með þann öfluga mannauð sem við búum yfir, en enn vantar okkur starfsfólk í skólana okkar.

Við tókum á móti nýjum slökkvibíl á Patreksfirði á árinu, en þau tímamót urðu einnig að ný ökutæki voru tekin í notkun hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði með nýjum sjúkrabíl og Lögreglunni á Vestfjörðum með nýjum lögreglubíl. Þá er á nýju ári gert ráð fyrir undirbúningi til kaupa á nýjum slökkvibíl á Bíldudal.

Vinna við ofanflóðavarnir á Patreksfirði hófust á árinu og er það mikilvægur liður í að tryggja enn betur öryggi íbúa í Vesturbyggð. Þá hafa íbúar og umhverfi sveitarfélagsins notið þess trjágróðurs sem víkja hefur þurft vegna framkvæmdanna og ánægjulegt að sjá hversu margir íbúar hafa nýtt það tækifæri við að fegra umhverfi sitt. Þá var á árinu lokið við undirbúning 2. áfanga frumathugunar vegna ofanflóðavarna á Bíldudal og voru þær hugmyndir kynntar á íbúafundi í Baldurshaga í sumar. Skortur á ofanflóðavörnum á Bíldudal hefur haft mikil áhrif á frekari uppbyggingu íbúðahúsnæðis á Bíldudal og hefur endurmat varnarmannvirkja neðan Búðargils, orðið til þess að enn færri lóðum hefur verið unnt að úthluta á Bíldudal, en áður var talið. Hefur það seinkað byggingaáformum, en á nýju ári eru bundnar vonir við að minnsta kosti 10 nýjar íbúðir muni rísa á Bíldudal. Þar af var veitt stofnframlag ríkisins til bygginga fjögurra íbúða og kemur Vesturbyggð að þeirri uppbyggingu með stofnframlagi sveitarfélagsins. Þá hefur nokkrum lóðum verið úthlutað á Patreksfirði og munu nýjar íbúðir einnig rísa þar á nýju ári, enda er mikil eftirspurn eftir húsnæði á sunnaverðum Vestfjörðum. Þá hefur leigufélagið Bríet auglýst eftir byggingaraðilum í uppbyggingu nýs leiguhúsnæðis í sveitarfélaginu og eru bundnar vonir við að þær íbúðir muni einnig rísa á nýju ári.

Íslendingar voru duglegir að leggja leið sína til okkar í sumar en færri erlendir ferðamenn sóttu okkur heim á árinu. Engin skemmtiferðaskip lögðust að bryggju á Patreksfirði síðasta sumar en nokkur skemmtiferðaskip hafa boðað komu sína á nýju ári. Gamla smiðjan á Bíldudal var opnuð að nýju þegar gengið var frá samningi um rekstur hennar. Þá hófust framkvæmdir við Vatneyrarbúð á Patreksfirði á árinu. Sótt hefur verið um styrk til að ljúka við skráningu og flokkun muna úr Vatneyrarbúð, sem hafa verið í geymslu um árabil. Markmið þess verkefnis er að tryggja að þeir munir sem tilheyra húsinu, rati aftur inn í húsið og þar verði sögu þeirra í tengslum við húsið gerð nánari skil, en ráðgert er að koma munum hússins fyrir í Vatneyrarbúð í áföngum, eftir því sem framkvæmdum miðar áfram. Á næsta ári er gert ráð fyrir að starfsemi muni svo hefjast í húsinu, en þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi, svo sem samfélags- og nýsköpunarmiðstöð ásamt aðstöðu fyrir námsmenn sem stunda rannsóknir og fjarnám á háskólastigi. Það er ákaflega ánægjulegt að húsinu hafi verið fundið nýtt hlutverk og það verði gætt lífi á nýjan leik. Í lok árs var sett á fót samfélags- og nýsköpunarmiðstöðin Muggsstofa á Bíldudal sem staðsett er í húsnæði Skrímslasetursins. Starf forstöðumanns var auglýst í lok árs og gengið verður frá ráðningu í janúar nk. Starfsemi Muggsstofu verður mikilvæg og nauðsynleg viðbót við þjónustu sveitarfélagsins á Bíldudal og bind ég miklar vonir við að starfsemin eigi eftir að efla enn frekar þjónustu sveitarfélagsins fyrir íbúa og auka enn frekar menningarstarfsemi á Bíldudal.

Mikil vinna fór fram á árinu við endurskoðun aðalskipulags Vesturbyggðar til ársins 2030 og í lok árs fór fram forkynning á skipulagstillögunni. Á nýju ári mun vinna við aðalskipulagið halda áfram og gert ráð fyrir góðu íbúasamráði við frekari vinnslu tillögunnar. Þá var á árinu lokið við gerð Húsnæðisáætlunar Vesturbyggðar til ársins 2028 og af henni ljóst að heilmikil uppbygging á íbúahúsnæði þarf að fara fram á næstu árum til að taka við þeirri miklu íbúafjölgun sem orðið hefur á síðustu árum, en íbúum hefur sem dæmi fjölgað um 44 á árinu 2020.

Þá var einnig á árinu lokið við gerð jafnréttisáætlunar Vesturbyggðar og hlaut Vesturbyggð einnig Jafnlaunavottun í september, þar sem sveitarfélagið innleiddi Jafnlaunastaðallinn ÍST85:2012, með það að markmiði að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna í störfum fyrir sveitarfélagið.

Mikil áhersla var á umhverfi sveitarfélagsins á árinu, en átak var gert í að steypa kantsteina og gangstéttar. Gangbrautum og umferðamerkingum var fjölgað verulega á árinu og verður áframhald á þeim verkefnum á nýju ári, en rík áhersla er á umhverfi og umferðaröryggi í sveitarfélaginu. Mörg fyrirtæki og einstaklingar í sveitarfélaginu hafa hugað vel að sínu umhverfi og tekið til hendinni. Sjáanlegur munur varð á mörgum svæðum sveitarfélagsins eftir komu járnskipsins nú síðla árs og gert er ráð fyrir að slíkt skip komi aftur á nýju ári til að fjarlægja enn frekar af járni af svæðinu. Áhersla er lögð á að fegra umhverfi sveitarfélagsins og stofnana þess. Einnig hvet ég forsvarsmenn fyrirtækja sem og einstaklinga til að koma að þessu verkefni með okkur, enda verður umhverfið okkar aldrei betra en við vinnum sjálf að.

Á árinu fóru fram miklar framkvæmdir við Bíldudalshöfn og í gegnum sérstakt tímabundið fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í upphafi ársins, fékk Vesturbyggð úthlutað framlagi til að auka enn frekar athafnarsvæði við Bíldudalshöfn og munu á nýju ári fara fram áframhaldandi framkvæmdir við landfyllingu. Munu þessar framkvæmdir auka enn frekar svigrúm þeirra fyrirtækja sem starfa á Bíldudal, sérstaklega þar sem veruleg framleiðsluaukning er fyrirhuguð.

Árið 2020 var gott samgönguár fyrir Vestfirðinga. Áratugabaráttu Vestfirðinga fyrir almennilegum samgöngum um Vestfjarðaveg í Gufudalssveit bar loks árangur þegar fyrstu hlutar framkvæmdarinnar voru boðnir út og sér loks fyrir endann á Teigskógmálinu sem hefur yfirtekið alla umræðu um samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum í áratugi. Dýrafjarðagöngin voru opnuð í október og framkvæmdir hófust á Dynjandisheiði á árinu. Þrátt fyrir þessi mikilvægu samgönguverkefni og bættar samgöngur til framtíðar, þá hafa vegkaflar innan svæðisins okkar ekki notið þess og hef ég verulegar áhyggjur af ástandi vega milli fjarðanna okkar. Verður það verkefni nýs árs að fá betri skilning og áherslu á alvarlegt ástand vegnanna okkar og sækja framlög fyrir okkar öfluga fólk í Vegagerðinni til að bregðast við alvarlegu ástandi veganna.

Eins og kom fram í kjölfar staðfestingu fjárhagsáætlunar næsta árs, þá er rekstur sveitarfélagsins þungur. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Vesturbyggðar hafa verið verulega skert. Í kjölfar hagræðingaaðgerða á árinu 2019 og 2020 höfum við náð betra jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins en enn vantar þó verulega upp á tekjur til að standa undir þeirri þjónustu sem sveitarfélaginu er gert að veita og hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þar einna mest áhrif. Það verður því verkefni nýs árs að fá þá tekjuskerðingu leiðrétta og styrkja tekjustofna sveitarfélagsins, svo við getum haldið áfram ótrauð við að efla enn frekar okkar öfluga sveitarfélag. Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næsta ári þar sem m.a. er gert ráð fyrir malbikun gatna og áframhaldandi framkvæmda við ofanflóðavarnir og hafnarmannvirki sveitarfélagsins. Við stöndum því keik og höldum áfram ótrauð þótt á móti blási.

Vesturbyggð hefur einnig komið að mörgum samstarfsverkefnum á árinu og verður þeim áframhaldið á nýju ári. Má þar helst nefna frumathugun vegna endurnýjunar hjúkrunarrýma við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið, en hluti þeirrar frumathugunar er að kanna möguleika þess að byggja upp þjónustuhúsnæði fyrir félagsstarf aldraðra sem og þjónustuíbúðir. Þá kemur Vesturbyggð að samráðsnefnd um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, sem kynntur var í lok árs, í samstarfi við nokkur ráðuneyti og Ísafjarðarbæ en áætlað er að þjóðgarðurinn verði opnaður á nýju ári. Þá kom Vesturbyggð einnig að samstarfi við einstaklinga og félög um einstök verkefni, eins og fyrirhugaða uppbyggingu frístundasvæðis við Taglið á Bíldudal, uppbyggingu gamalla húsa á Bíldudal, undirbúning fyrir endurbyggingu gömlu kolbryggjunnar við Vatneyri og framkvæmdir við sundlaugina í Laugarnesi á Barðaströnd.

Aukin áhersla hefur verið á vinnslu umsagna og ábendinga frá Vesturbyggð um hin ýmsu þingmál sem snúa að málefnum sunnanverðra Vestfjarða, en m.a. hefur Vesturbyggð komið að umsögnum varðandi endurskoðun byggðaáætlunar, breytingu á hafnalögum nr. 61/2003 sem og lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem samþykkt var á Alþingi fyrir jól, þar sem mælt er m.a. fyrir um sérstakan styrk til þeirra sem dvelja fjarri heimili sínu vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu.

Það er öflugt ár framundan í Vesturbyggð og við látum ekki heimsfaraldur draga úr okkur kraftinn við að efla Vesturbyggð og íbúa þess til góðra og mikilvægra verka.

Að lokum við ég þakka öllu því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Vesturbyggð fyrir þeirra faglegu störf í þágu samfélagsins og framlag til þeirrar miklu umbótavinnu og breytinga sem átt hafa sér stað og munu áfram eiga sér stað á nýju ári. Ég horfi bjartsýn fram á veginn og er full eftirvæntingar við að takast á við nýjar áskoranir og verkefni til að efla enn frekar Vesturbyggð. Von mín er að nýtt ár færi mér fleiri góð samtöl við íbúa með ábendingum um nýjar hugmyndir og tækifæri fyrir Vesturbyggð. Allt skiptir það máli við að efla sveitarfélagið okkar, enda eins og maðurinn sagði eitt sinn „Maður gerir ekki rassgat einn.“

Megi nýtt ár færa okkur öllum hamingju og góða heilsu. Saman gerum við Vesturbyggð að bestubyggð !

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.

DEILA