Strandabyggð: Hætt við hitaveitu

Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Strandabyggðar horft til samstarfs við landeigendur í Hveravík um kaup á heitu vatni þaðan.

Búið er að skoða og reikna fjárhagslegar forsendur þess að kaupa heitt vatn í Hveravík og leiða það til Hólmavíkur, bæði landleiðina og svo yfir fjörðinn með lögn í sjó.
Síðastliðin 1-2 ár hefur verið unnið að samningagerð við landeigendur, sem byggði á niðurstöðu álagsprófunar á þeirri holu sem horft er til í Hveravík.
Öll þessi vinna hefur skilað miklu magni af verðmætum og gagnlegum upplýsingum, bæði fyrir sveitarfélagið en einnig landeigendur.

Líklegt er að kostnaður vegna hitaveituframkvæmda sé mun meiri nú en áætlað var í byrjun, vegna breytinga á gengi krónunnar. Þá hefur Strandabyggð einnig orðið mjög illa úti vegna skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs, sem að jafnaði eru 45-50% af tekjum sveitarfélagsins.

Einnig má nefna að ekki hefur tekist að fullu að ganga frá samningum við landeigendur.

Við þessar aðstæður metur sveitarstjórn Strandabyggðar það svo, að óábyrgt sé og í raun ekki fjárhagslega gerlegt að halda áfram með málið og hefur því ákveðið að stöðva af sinni hálfu frekari samningaviðræður og undirbúning, a.m.k. þar til forsendur breytast.

DEILA