Samdráttur í útflutningi sjávarafurða í október

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,7 milljörðum króna í október samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Þetta er tæplega 16% samdráttur í krónum talið miðað við október í fyrra, en rúmlega 27% samdráttur mælt í erlendri mynt.

Gengi krónunnar var um 14% veikara í október en í sama mánuði í fyrra. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur ræðir liggur aðeins fyrir hvert útflutningsverðmæti sjávarafurða var í heild í október en ekki útflutt magn eða sundurliðun á verðmætum einstakra tegunda eða afurðaflokka.

Tölur þess efnis verða birtar 30. nóvember.

Ofangreindur samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða í október kann einnig að eiga rætur í verðlækkunum.
Þannig hefur verð á sjávarafafurðum lækkað verulega frá því COVID-19 skall á og hafa verðlækkanir heldur færst í aukana eftir því sem lengra hefur liðið á árið.

Það má til að mynda sjá í þróun verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en nýjustu tölur eru fyrir september. Var 12 mánaða taktur verðvísitölunnar kominn niður í 5,6% lækkun í september í erlendri mynt, það er breytingin á milli september í ár miðað við september í fyrra.

Er það mesta lækkun frá því á miðju ári 2013. Þetta er verulegur viðsnúningur frá þeirri þróun sem átti sér stað fyrir COVID-19, en til að mynda var 12 mánaða taktur verðvísitölunnar í desember 9,3% hækkun.

DEILA