Ríkisstjórnin ræðst í fræðsluátak um gervigreind.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að ráðist verði í fræðsluátak fyrir almenning um gervigreind.

Er það í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni.

Markmið fræðsluátaksins er að efla fólk til að nýta sér þau tækifæri sem felast í gervigreind í sínu nærumhverfi á vinnumarkaði og annars staðar.
Til þess að skapa megi grunn fyrir nýtingu tækni gervigreindar á Íslandi er mikilvægt að þekking á því sviði sé útbreidd í samfélaginu.

Grunnurinn í fræðsluátakinu verður þekkt gervigreindarnámskeið sem þróað hefur verið af Háskólanum í Helsinki og finnsku ráðgjafafyrirtæki.

Námskeiðið hefur verið þýtt og notað víða um heim en gert er ráð fyrir að þýðing yfir á íslensku taki um fjóra mánuði.
Fræðsluátakið gæti því farið af stað snemma vors 2021 en námskeiðið verður öllum opið á netinu.

DEILA