Vesturbyggð – Aðalskipulag endurskoðað

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar hefur síðustu mánuði unnið að heild­ar­end­ur­skoðun aðal­skipu­lags Vestu­byggðar. Megin­á­stæður endur­skoð­un­ar­innar var að skipu­lags­tímabil núgild­andi aðal­skipu­lags var að ljúka, ný ákvæði skipu­lagslaga og reglu­gerðir hafa tekið gildi, lands­skipu­lags­stefna hefur verið stað­fest og þá hefur orðið mikil uppbygging í sveit­ar­fé­laginu og breyt­ingar í samgöngu­kerfi sem kallar á nýja stefnu­mótun varð­andi skipulag sveit­ar­fé­lagsins.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar vill vekja sérstaka athygli á eftirtöldum breytingum hvað varðar þéttbýlið á Patreksfirði og Bíldudal

Patreksfjörður – þéttbýli

Gerð er tillaga um skilgreiningu miðsvæðis á Patreksfirði á reit M1, fyrir fjölbreytta starfsemi sem eflir líf og tengingu við íbúðabyggð með frjálsu flæði umferðar, endurspegli sögu og ímynd þorpsins. Miðsvæði afmarkist af Þórsgötu, Bjarkargötu og Aðalstræti – sjá nánar kafla 5.8 í skipulagtillögu

Friðþjófstorg skilgreint sem bæjartorg, þar sem áhersla er lögð á að torgið geti nýst vel fyrir t.a.m. smáhýsi fyrir markaði, skautasvell á veturna o.fl. Lögð er áherslu á aðgengi fyrir alla og að umhverfið verði vistlegt með gróðri, lýsingu og göngugötu – sjá nánar kafla 5.8 í skipulagstillögu

Hverfisvernd fyrir elstu byggð á Patreksfirði á Vatneyri. Nær yfir ÍB2, ÍB3, ÍB4, M1 og VÞ1. Svæðið er mikilvægt vegna byggingararfs og verslunarsögu Patreksfjarðar – sjá nánar kafla 6.10 í skipulagstillögu

Íbúabyggð á reitnum ÍB1, Hólar og Mýrar er stækkaður niður að hafnarsvæði – sjá nánar kafla 4.2 í skipulagstillögu
Íbúabyggð á reitnum ÍB7 Sigtún, Hjallar, Brunnar, Balar og Aðalstræti er stækkað niður að Aðalstræti – sjá nánar kafla 4.2 í skipulagstillögu

Athafnasvæði á reit AT2 við hafnasvæði við enda Bjarkargötu og við hús Rauðakross Íslands er breytt, en þar var áður skilgreint opið svæði – sjá nánar kafla 5.6.1 í skipulagstillögu

Nýtt athafnarsvæði er skilgreint í Fjósadal á reit A1, þar er gert ráð fyrir að byggt verði upp svæði til móttöku sorps á Patreksfirði og það verði flutt af hafnarsvæði Patrekshafnar á skipulagstímabilinu, einnig er þar svigrúm til uppbyggingu frekara geymslusvæðis. Á svæðinu er gert ráð fyrir að setja upp jarðvegsmanir og gróður í kringum þá starfsemi sem áætluð er á athafnarsvæðinu til að draga úr mögulegri sjónmengun m.a. af sjó – sjá nánar kafla 5.6.1 í skipulagstillögu

Opið svæði á reit OP3 á Vatneyri fyrir neðan Vatneyrarbúð, Gömlu símstöðina og Ólafshús, en þar er grassvæði sem æskilegt er að halda í til að viðhalda ásýnd þorpsins, þar á svæðinu er fyrirhuguð frekari uppbygging fyrir afþreyingu og sjósport – sjá nánar kafla 4.4.1 í skipulagstillögu

Bíldudalur – þéttbýli

Gerð er tillaga um skilgreiningu miðsvæðis á Bíldudal á reit M2, fyrir fjölbreytta starfsemi sem eflir líf og tengingu við íbúðabyggð með frjálsu flæði umferðar, endurspegli sögu og ímynd þorpsins. Miðsvæði afmarkast af slökkviliðstúni/Baldurshaga, að íþróttahúsi og niður fyrir Hafnarbraut. Innan svæðisins í dag er félagsheimilið Baldurshagi á Bíldudal ásamt Gömlu smiðjunni, verslun, gistiheimili og bensínafgreiðslu. Á miðsvæði fyrir neðan Hafnarbraut er gert ráð fyrir landfyllingu og endurbyggingu gamalla húsa á Bíldudal – sjá nánar kafla 5.8 í skipulagtillögu

Á lóð félagsheimilisins Baldurshaga verði skilgreint bæjartorg, þar sem áhersla er lögð á að svæðið geti nýst vel til að setja upp mannvirki sem henta þeirri starfsemi á mismunandi árstímum. Lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla og að umhverfið verði vistlegt með gróðri, lýsingu og göngugötu – sjá nánar kafla 5.8 í skipulagstillögu

Hverfisvernd fyrir byggð í Milljónahverfinu á Bíldudal. Þyrping fúnkíshúsa frá eftirstríðaárunum sem mynda heild – sjá nánar kafla 6.10

Skilgreind er ný íbúðabyggð með aðkomu frá Bíldudalsvegi, á reit ÍB12 en reiturinn er tekinn frá sem íbúðarbyggð ef fjölgun í sveitarfélaginu yrði umfram væntingar og hraðari en uppbygging varnargarða gerir ráð fyrir. Á svæðinu er hægt að koma fyrir allt að 60 íbúðum í eins til tveggja hæða einbýlis-, par- eða raðhúsum. Lagt er til nýtt svæði, en lítið er hægt að þétta núverandi byggð á Bíldudal vegna þess að land nær þéttbýli er í einkaeign. Þá er enn ólokið við að verja byggðina við Dalbraut og Gilsbakkagil og með breyttum áherslum við hættumat undir ofanflóðavörnum, er ljóst að þétting byggðar verður ekki eins mikil og vonir stóðu til. Er því lögð til ný íbúðabyggð í dalnum nálægt Völuvelli – sjá nánar kafla 4.2 í skipulagstillögu

Gerð er tillaga að stækkun íbúðabyggðar á reit ÍB16, hluti Dalbrautar, Sæbakki, Smiðjustígur og Hafnarbraut. Hluti svæðisins er í dag á hættusvæði en fyrirhugað er að reisa varnargarða ofan byggðar. Með þeim aðgerðum er hægt að koma fyrir allt 10-12 lóðum meðfram Dalbrautinni fyrir allt að 20 íbúðir. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á núverandi landfyllingu við íþróttahúsið Byltu en þar er pláss fyrir allt að 20 íbúðir í tveimur húsum – sjá nánar kafla 4.2 í skipulagstillögu

Gert er ráð fyrir að svæði fyrir samfélagsþjónustu á reit S3 og íþróttasvæði á reit ÍÞ6 við Byltu á Bíldudal verði stækkað, m.a. vegna nýrrar aðkomu í þorpið á Bíldudal. Á reit S3 er gert ráð fyrir framtíðaruppbyggingu nýs grunn- og leikskóla. Þá verði neðan við íþróttahús skilgreint svæði fyrir vaðlaug/sundlaug og afþreyingar og ferðamannasvæði, þar sem byggð verði upp aðstaða fyrir sjósundsiðkunn – sjá nánar kafla 4.5.2 og 4.4.2 í skipulagstillögu

Gerð er tillaga að skilgreiningu á opnu svæði á milli íbúðabyggðar á reit ÍB17 og ÍB18, um er að ræða svæði fyrir fráflæði frá ofanvarnamannvirkjum við Búðargil og verður reitur OP11. Á svæðinu eru tvö hús sem notuð eru sem frístundahús. Möguleiki til endurbóta á svæðinu til að nýta það betur til útivistar – sjá nánar kafla 4.4.1 í skipulagstillögu

Óbreytt er iðnaðarsvæði á reit I4, skv. núgildandi aðalskipulagi, þar sem gert er ráð fyrir landfyllingu sem nær frá gamla sláturhúsinu/beitningaskúr að Banahlein en um er að ræða land í einkaeigu – sjá nánar kafla 5.6.2 í skipulagstillögu

Gert er ráð fyrir nýrri aðkomu inn í þorpið á Bíldudal, þannig að lega Bíldudalsvegar breytist og vogurinn verði þveraður – sjá nánar kafla 7.1 í skipulagstillögu.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur íbúa, hagsmunaaðila og alla þá sem hafa athugasemdir og ábendingar um vinnslutillögu aðalskipulagsins til að skila þeim til sveitarfélagsins fyrir 22. nóvember 2020.

DEILA