Slagsmál, hraðakstur, ölvun og innbrot

Töluvert var að gera hjá lögreglunni á Vestfjörðum í síðustu viku.

Slagsmál brutust út milli nokkurra aðila á Bíldudal á föstudag.
Einhverjir hlutu áverka og var því kallað eftir sjúkrabíl til að hlúa að þeim.
Eftir átökin dró einn aðilinn upp hníf og var hann handtekinn í kjölfarið og vistaður í fangaklefa til næsta morguns. Atvikið er til rannsóknar hjá lögreglunni.

Sex ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.
Sá sem hraðast ók var stöðvaður við akstur á Djúpvegi við Þröskulda á 124 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hraði er 90 km.
Fimm ökumannanna voru stöðvaðir við akstur á Djúpvegi en einn við Vestfjarðagöng. Einn ökumaðurinn virtist vera í annarlegu ástandi er hann var stöðvaður og reyndist vera undir áhrifum vímuefna.

Á þriðjudag reyndi lögregla að aðstoða stúlku í slæmu ástandi en hún var á gangi á Ísafirði berfætt og í náttfötum.
Stúlkan virtist vera í annarlegu ástandi og illa áttuð. Ekki gekk að komast að dvalarstað hennar eða áform hennar. Til að tryggja öryggi hennar var hún færð í fangaklefa og látin sofa úr sér vímuna.
Var henni ekið til síns heima daginn eftir, þegar hún gat upplýst um þann stað.

Einhvern tímann á tímabilinu, 13:00 í fyrradag (06.09.2020) til klukkan 08:00 í gær (07.09.2020), var brotist inn í aðstöðu Dýralæknaþjónustunnar SISVET slf. sem er til húsa á Hlíðarvegi 9 á Ísafirði (bílskúr).

Verðmæti voru tekin þaðan, m.a. fartölva.

Ef einhver getur veitt upplýsingar varðandi þetta tiltekna innbrot og þjófnað er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum

DEILA