Sigurvegarar í MAKEathon

Um síðustu helgi tóku meistaranemar Háskólaseturs Vestfjarða þátt í MAKEathon nýsköpunarkeppni á vegum Matís.
Keppnin fór fram í Bolungarvík og á Ísafirði en samtímis fór hún einnig fram á þremur öðrum stöðum á landinu í gegnum fjarfund, á Akureyri, Neskaupsstað og Reykjavík.

Verkefni keppninnar fólst í því að finna leiðir til að auka verðmæti aukahráefnis úr sjávarútvegi til að gera vinnsluna sjálfbærari.
Í keppninni var einkum horft til nýtingar á því kjöti sem eftir verður á beinagarðinum þegar búið er að flaka lax.

Síðastliðinn mánudag var svo tilkynnt um sigurvegara keppninnar og varð hópurinn SOS hlutskarpastur með hugmynd að vöru sem líkist salami og pepperoni nema úr fiski.

Hópinn skipuðu Jake Mauril Thompson, sem útskrifaðist úr meistaranáminu í Haf- og strandsvæðastjórnun fyrr á þessu ári, Joyce Bos, nemandi á fyrsta ári í Haf- og strandsvæðastjórnun, Frances Simmons, nemandi á fyrsta ári í Sjávarbyggðafræði og þær Amanda Burman og Passion Taylor sem stunda meistaranám á vegum School for International Training í Háskólasetri Vestfjarða.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Háskólasetri Vestfjarða að viðstöddum hluta af styrktaraðilum verkefnisins.
Í verðlaun fékk hópurinn kvöldverð á veitingastaðnum Húsinu auk handleiðslu frá ráðgjöfum Vestfjarðastofu og vinnuaðstöðu í frumkvöðlasetrinu Djúpinu í Bolungarvík.

Hugmynd SOS þótti bæði framsækin og trúverðug en að sögn aðstandenda keppninnar kom á óvart hve frambærilegar allar hugmyndir hópanna fimm voru.

Gunnar Þórðarson, starfsmaður Matís á Ísafirði varpaði fram þeirri hugmynd að sigurvegararnir myndu kynna þessa nýju vöru fyrir almenningi í október í samvinnu við brugghúsið Dokkuna á Ísafirði.
Svo það er aldrei að vita nema varan verði á boðstólnum í prufuútgáfu fljótlega.

Matís hélt utan um verkefnið á Íslandi en um er að ræða samstarf aðila í 11 löndum í Evrópu og er því stýrt frá Cambridge háskólanum í Bretlandi.

DEILA